*

Bílar 17. september 2017

Stílhreinn stallbakur

Nýverið kynnti Hyundai nýjan i30 fólksbíl sem er laglegur í hönnun og skemmtilegur í akstri

Róbert Róbertsson

Lengi vel þótti ekkert sérlega töff að aka um á Hyundai en það hefur breyst mjög síðasta áratuginn eða svo enda flottari og betri bílar komið fram á sjónarsviðið úr smiðju suður-kóreska bílaframleiðandans. Hyundai i30 er einn þeirra. Þessi nýi i30 er stallbakur með nútímalegt og laglegt útlit. Nýtt stallað grillið er hannað eftir hugmynd um flæði bráðins stáls að sögn hönnuða Hyundai. LED-ljósin eru laglega hönnuð að framan og aftan. Heildarútlit bílsins er stílhreint og sportlegt með aflíðandi línur í hliðunum.

Smekklegur að innan

Innanrýmið í i30 er smekklega hannað með 8 tommu snertiskjá áberandi fyrir miðjunni með góðu aðgengi að alls kyns upplýsingum og afþreyingu. Tæknin er til staðar í þessum bíl og aðgangur að Apple CarPlay og Android Auto í boði sem tryggir samband við umheiminn.

Þá er þráðlaus hleðsla snjallsíma í bílnum sem er sniðugt fyrirbæri og kemur sér vel. Stjórntakkar eru þægilega staðsettir og bíllinn er með rafræna handbremsu sem er að verða vinsælli kostur í bílum í dag. Það gefur aðeins meira pláss á mili framsætanna. 

Sætin eru ágæt og plássið gott frammí. Afturí er ágætt pláss fyrir tvo fullorðna en þrengir verulega að ef þrír sitja þar. Skottið býður upp á fínt pláss fyrir bíl í þessum stærðarflokki. 

Ný og spræk bensínvél

Reynsluakstursbíllinn er með nýrri 1,4 lítra T-GDI bens- ínvél með forþjöppu. Þessi nýja bensínvél er 14 kílóum léttari en fyrri vél og gefur hún fínan kraft. Hún er hönnuð til að gefa aukið viðbragð og tög við lágan snúning. Hún skilar 140 hestöflum á aðeins 1.500 sn./mín. Togið er 242 Nm.

 Bíllinn er sjálfskiptur en hann fæst einnig beinskiptur. Vélin er spræk og það er gaman að taka aðeins á bílnum. Hann höndlar það vel og aksturinn er skemmtielgur og nokkuð sportlegur. Bíllinn er 9,2 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkaðshraðinn er 205 km/klst. Einnig eru í boði 120 hestafla eins lítra TGDI bensínvél og 1,6 lítra dísilvél með forþjöppu, sem fæst í þremur aflútfærslum: 95, 110 eða 136 hestöfl. 

Þá er sjö gíra, tveggja kúplinga skiptingin mjög skemmtileg. Í nýju kynslóðinni er viðbragðsbetra stýri og aukin lipurð heilt yfir í akstrinum sem gerir hann að skemmtilegum akstursbíl. Eyðslan í reynsluakstursbílnum er frá 5,5 lítrum á hundraðið og CO2 losunin er 120 g/km. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Hyundai  • stallbakur