*

Ferðalög 15. janúar 2014

Stjórnvöld í Norður-Kóreu opna skíðasvæði

Skíðasvæði sem stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa byggt undanfarin ár opnaði nú í byrjun árs.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa nú opnað skíðasvæðið sem þau hafa verið að byggja síðustu misserin og vb.is sagði frá í fyrravor.

Skíðasvæðið er í Masik í Kangwonhéraði og er Masikhæðin 768 metra há. Svæðið er snjóþungt og vanalega snjóar duglega frá snemma í nóvember og þangað til í mars. Hótelið og önnur hús, sem tengjast skíðasvæðinu, opnuðu 1. janúar eftir þó nokkrar tafir.

Simon Cockerell sem er yfir Koryo Tours í Peking var einn af fyrstu gestunum sem boðið var á svæðið. Hann segir frá því að hann hafi komið til Masik 12. janúar og fyrsti maðurinn sem hann rakst á var körfuboltamaðurinn Dennis Rodman. Hér má lesa nánar um heimsókn Cockerell en hann bloggar á heimasíðu fyrirtækisins.

Ekki hefur enn verið gefið upp hvað mun kosta að skíða á svæðinu en Cockerell spáir að það verði í kringum 41 dal og þá er leiga á skíðagræjum ekki innifalin. Hótelið er mjög þægilegt og flott að sögn Cocherell og er með 120 herbergi í tveimur byggingum. Á hótelinu er sundlaug, barir, kaffihús, billjardborð og karíókíherbergi og gufuböð. CNN greinir frá málinu á vefsíðu sinni í dag.