*

Tölvur & tækni 21. september 2012

Stofnandi Apple: iPhone 45 gerir fólk óþarft

Steve Wozniak stofnaði Apple með Steve Jobs fyrir tæpum 40 árum. Hann býst við að símar verði tilfinningaverur í framtíðinni.

Þegar iPhone 45 kemur á markað þá mun tæknin verða slík að notendur, þ.e.a.s. mannfólkið, verður orðið óþarft. Þetta segir Steve Wozniak, sem stofnaði Apple ásamt Steve Jobs árið 1976. Sala hófst á fimmtu kynslóð iPhone-síma Apple víða um heim í dag. 

Wosniak hefur ekki komið að rekstri Apple í áraraðir eða síðan árið 1981 eftir að hann lenti í alvarlegu flugslysi. Hann hefur þrátt fyrir það ekki hægt afskiptum sínum af þróun í tölvutækni.

Hann var gestur á ráðstefnunni QUT Business Leaders Forum í Brisbane í Ástralíu í gær. Þar sagði hann m.a. gervigreind í tölvum þróast hratt og taldi líkur á að innan 40 ára verði þær komnar með meðvitun og eitthvert form af tilfinningum. Hann hélt áfram og sagði m.a. að hugsanlega muni tölvur og tæki koma í stað mannfólksins og samfélagið breytast talsvert af þeim sökum

„Sjáiði til,“ hefur netmiðillinn CNet eftir Wozniak, „iPhone-síminn minn mun koma til með að þekkja mig svo vel, að ég þarf ekki á öðrum mannfólki að halda.“

Við þetta má bæta, að Steve Wozniak hefur verið giftur fjórum sinnum og á þrjú börn.

 

Stikkorð: Apple  • Steve Wozniak