*

Tölvur & tækni 2. febrúar 2012

Stofnandi Facebook verður óhuggulega ríkur

Mark Zuckerberg mun eignast rúman milljarð dala fyrir hvert ár sem hann hefur verið til þegar Facebook verður skráð á markað.

Mack Zuckerberg, stofnandi Facebook, verður milljarðamæringur þegar fyrirtækið verður skráð á markað. Fyrirtækið hefur stigið fyrstu skrefin í átt til skráningar, sem gert er ráð fyrir að verði að veruleika síðar á árinu.

Zuckerberg er 27 ára gamall og stofnaði Facebook ásamt félögum sínum þegar hann var við nám í Harvard-háskóla árið 2004. Hann á 28,4% hlut í Facebook sem við skráningu setur verðmiða á eignina. Og ekki er um neina smáræðiseign að ræða. Gögn sem lögð hafa verið fram til bandaríska fjármálaeftirlitsins í tengslum við skráningu Facebook á markað nemur markaðsvirði fyrirtækisins 80 milljörðum dala, jafnvirði tæpra 9.900 milljarða íslenskra króna.

Miðað við það nemur verðmæti eignahlutar Zuckerberg 22,7 milljörðum dala, jafnvirði um 2.800 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar nam landsframleiðsla hér á landi 1.537 milljörðum króna árið 2010. 

Aðrir hluthafar Facebook ættu ekki að verða svekktir en samtals eiga Zuckerberg og hans nánasta samstarfsfólk 57% í fyrirtækinu. Það jafngildir hlutafjáreign upp á tæpa 46 milljarða dala, samkvæmt umfjöllun Financial Times um málið. 

Mark Zuckerberg, sem stofnaði Facebook fyrir um átta árum. Hann ætti að hafa efni á að kaupa sér nýja og betri skó þegar og ef hann selur hlut af eign sinni í fyrirtækinu eftir að það hefur verið skráð á hlutabréfamarkað.

Stikkorð: Facebook  • Mark Zuckerberg