*

Hitt og þetta 7. október 2013

Stofnandi skóveldis selur Hamptons höll

Einn af stofnendum Nine West skóveldisins setur húsið sitt í Hamptons á sölu fyrir 49,5 milljónir dala.

Vince Camuto er einn af stofnendum Nine West skóveldisins. Hann og kona hans, Louise, hyggjast selja heimili sitt í Water Mill í New York fylki fyrir 49,5 milljónir dala eða tæpa sex milljarða króna.

Eignin kallast Villa Maria og var húsið byggt árið 1887. Það er á þremur hæðum og í því eru ellefu svefnherbergi, tólf baðherbergi og bókasafn með hvelfingu. Húsið er gríðarlega stórt eða um 1860 fermetrar. Á annarri hæðinni fer öll vesturálman undir aðalsvefnherbergið eða 250 fermetrar. Á hæðinni eru einnig fimm önnur svefnherbergi.

Á efstu hæðinni er stórt leikherbergi og þaðan er gengið út á verönd með útsýni yfir hafið. Á hæðinni er líka líkamsræktarherbergi og stór bíósalur með arni og mjög mikilli lofthæð. Á lóðinni er tennisvöllur, sundlaug og gestahús með tveimur svefnherbergjum og þremur baðherbergjum.

Hjónin keyptu eignina fyrir 35 milljónir dala árið 2005 og voru fimm ár að gera heimilið upp. Fleiri myndir og frekari upplýsingar má lesa í grein á vefsíðu The Wall Street Journal.

Stikkorð: Nine West