*

Sport & peningar 31. desember 2016

Stoke sýndi Jóni Daða áhuga

Jón Daði Böðvarsson hefur á rúmu ári leikið með þremur liðum — Wolves keypti hann á 2,5 milljónir punda.

Trausti Hafliðason

„Fótboltaheimurinn er skrítinn og ekkert voðalega huggulegur alltaf því á endanum þá er maður bara vara sem gengur kaupum og sölum. Þetta er kannski eitt af því sem réttlætir það að knattspyrnumenn séu á góðum launum," segir Jón Daði Böðvarsson, sem á rúmu ári hefur leikið með þremur liðum eða Viking frá Stafangri í Noregi, Kaiserslautern í Þýskalandi og Wolves í Englandi.

„Það er svolítið fyndið hvað fótboltinn getur verið einfaldur. Þrátt fyrir að ég hafi spilað vel fyrstu tvo leikina á EM þá var það markið sem ég skoraði á móti Austurríki í þriðja leiknum sem skipti öllu máli. Eftir það fann ég fyrir tvöfalt meiri áhuga og lið fóru að spyrjast fyrir um mig. Eitt af þessum liðum var Úrvalsdeildarliðið Stoke en hin voru flest í ensku 1. deildinni. Á endanum voru það Wolves og QPR sem sýndu mér mestan áhuga. Wolves gerði tilboð sem var hærra en önnur og þess vegna fór ég til þeirra og ég er mjög ánægður með það."

Wolves greiddi 2,5 milljónir punda fyrir Jón Daða. Þrátt fyrir að hann hafi bara verið nokkra mánuði hjá Kaiserslautern er óhætt að segja að liðið hafi grætt vel á honum því eins og áður sagði borgaði þýska liðið Viking ekki krónu fyrir hann.

„Kaiserslautern vildi reyndar ekki selja mig og ég þurfti að láta forráðamenn liðsins vita að ég vildi fara. Það var tekið misvel í það en að lokum gekk þetta eftir."

Ítarlegt viðtal við Jón Daða er í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér.