*

Bílar 22. maí 2021

Stór og afbragðsgóður sportjeppi

Nýr Audi Q7 er mættur til leiks í tengiltvinnútfærslu þ.e. með brunavél og rafmótor og hreinlega flýgur á þjóðveginum.

Róbert Róbertsson

Audi Q7 hefur um árabil verið flaggskip sportjeppaflota þýska lúxusbílamerkisins Audi. Nýr Audi Q7 er nú mættur til leiks í tengiltvinnútfærslu þ.e. með brunavél og rafmótor. Audi Q7 hefur fengið andlitsupplyftingu síðan hann kom í þessari kynslóð árið 2015 en mesta breytingin er klárlega tengiltvinnvélin.

Audi hefur nú þegar komið fram með rafsportjeppana eTron 50 og 55 sem eru hreinir rafbílar. Nú hefur framleiðandinn sett á markað nýjan Q7 í tengiltvinnútfærslu þ.e. með bensínvél og rafhlöðu sem þýðir að hægt er að nýta bensínvélina þegar rafmagnið klárast eftir rúma 40 km akstur sem kemur sér vel t.d. þegar draga á hjólhýsi. Audi hefur áður komið fram með Q7 í tengiltvinnútfærslu þar sem dísilvél var á móti rafhlöðunni en þetta er sem sagt í fyrsta skipti sem bensínvélin er notuð í tengiltvinnútfærslu á Q7.

Audi Q7 kom fyrst á markað árið 2005 og var svar Audi við stóru lúxussportjeppum frá BMW og Mercedes-Benz. Q7 var reyndar fyrsti sportjeppi Audi en síðan hefur framleiðandinn komið fram með stóra sportjeppaflóru, Q1, Q2, Q4 og Q5 auk nýjustu, rafdrifnu e-Tron sportjeppanna. Q4 er síðan á leiðinni sem er hreinn rafbíll eins og eTron. Q7 hefur hingað til verið vinsælastur með dísilvélinni en það breytist væntanlega nú þegar þessi tengiiltvinnútfærsla hefur litið dagsins ljós.

Í hundraðið á aðeins 5,4 sekúndum  

Audi Q7 60 TFSI e sem er reynsluekið hér er með þriggja lítra V6 bensínvél með forþjöppu auk 17,3 kW rafhlöðu sem skilar 462 hestöflum. Hámarkstogið er 700 Nm þannig að það er feikilega gott afl í bílnum. Sportjeppinn fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,4 sekúndum sem er mjög gott fyrir svo stóran bíl. Það er því ekki hægt að kvarta yfir aflleysi í þessum afbragðsgóða sportjeppa. Það er mjög gott að aka honum enda mjög mjúkur og góður í alla staði. Þetta er svolítið eins og að fljúga í þotu þegar komið er út á þjóðveginn. Q7 hreinlega svífur áfram átakalaust.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér