*

Bílar 12. ágúst 2017

Stór og stæðilegur

Land Rover Discovery er mjög góður í akstri þótt hann sé stór og mikill.

Róbert Róbertsson

Nýr Land Rover Discovery er mættur á svæðið og með sannkölluðum stæl. Þessi stóri og stæðilegi jeppi er fullkominn ferðabíll enda býður hann upp á mikið pláss fyrir fólk og farangur sem var fullreynt í ferðalagi í Skagafjörðinn á dögunum. Hann leysir af hólmi vel heppnaðan forvera en þessi er enn betur búinn hvað varðar búnað og tækni.

Hönnunin á jeppanum er nokkuð vel heppnuð heilt yfir. Framendinn er flottur með laglega hönnuð LED ljósin, stóran stuðara og frekar nett grillið. Heildarsvipurinn er kraftalegur. Útlitslega er hann sístur að aftanverðu þar sem hann virkar svolítið þunglamalegur. Jeppinn er fallega hannaður að innan. Sterkar láréttar og lóðréttar línur gefa fágað yfirbragð. Efnisvalið er mjög vandað þar sem mætast leður, viður og ál. Maður fær lúxustilfinningu að setjast inn í jeppann. Allt er fágað og flott. Sætin eru einstaklega þægileg í þessari útfærslu jeppans. Það er hægt að velja um hita, kælingu eða nudd í sætunum. Það er farið vel með mann í þessum jeppa og ekkert til sparað.

Jeppinn er mjög góður í akstri þótt hann sé stór og mikill.  Hann er vel búinn aksturs og öryggiskerfum sem auka á þægindi og öryggi í akstrinum. HDC hallastýringin kemur sér til góða við að viðhalda stöð­ugum hraða og beitir hemlun sjálfstætt til að auðvelda akstur niður erfiðar brekkur.

Í þessari HSE útfærslu sem reynsluekið var kostar jeppinn um 12 milljónir króna. Í ódýrustu útfærslunni S kostar Discovery 9 milljónir en hann er þá með 2 lítra dísilvél. Í HSE Luxury kostar hann 15 milljónir en hann er þá búinn 3 lítra Si6 bensínvél sem skilar 340 hest­öflum og er 7,1 sekúndu í hundraðið. Það er gríðarlega öflugur jeppi eins og frammistöðutölurnar segja til um.

Nánar er fjallað um reynsluaksturinn í blaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.