*

Bílar 14. desember 2019

Stór og sterkur Ford

Ranger er sérlega sterkbyggður fyrir allskonar verkefni hvort sem er í vinnu eða fyrir áhugamálin.

Róbert Róbertsson

Ford Ranger er einn mest seldi pallbíll í Evrópu með 43.300 bíla selda á þessu ári. Nýr Ranger hefur þegar unnið hin eftirsóttu verðlaun International Pick-up Award 2020 (IPUA) sem afhent voru á dögunum. Ford Ranger er stór og sterkbyggður pallbíll og það finnst þegar klifrað er upp í ökumannssætið. Manni líður raunar eins og kúreka í Texas á þessum mikla bíl. Það vantar bara kúrekahattinn á mig undir stýri þegar ekið er um höfuðborgina og nágrenni. Og kannski hestakerruna aftan á.

Einstaklega sterkbyggður

Ranger er einstaklega sterkur með burðargetu upp á 1 tonn og dráttargetu með krók allt að 3.500 kg. Hann er sterkbyggður og í innra rými er notast við gæðaefni sem eru traust og endingargóð og þola þannig mikið álag. En hann er líka þægilegur í daglegri umgengni með geymsluhólf fyrir mat, glasa- eða flöskuhaldara, bakka fyrir litla hluti og pláss fyrir farsímann þinn auk þess sem það eru tvö stór geymslusvæði undir aftursætunum.

Hanskahólfið getur geymt 15 tommu fartölvu, stutta regnhlíf og fleira. Í fyrsta skipti er Ford Ranger fáanlegur með innbyggðu FordPass Connect. Með því kerfi er hægt að opna og læsa bílnum, gangsetja hann og tengjast WiFI hotspot sem gerir allt skemmtilegra og þægilegra.

Wildtrak útfærslan sérlega vel útbúin

Ford Ranger er fjórhjóladrifinn og fæst í fjórum útfærslum. Reynsluakstursbíllinn er í Double Cab Wildtrak útfærslu sem er sú vinsælasta og mest selda samkvæmt upplýsingum frá Brimborg sem er umboðsaðili Ford á Íslandi. Wildtrak er sérlega vel búinn og hentar bæði í leik og starfi. Bíllinn er með leðuráklæði með tau á slitflötum, 8 tommu snertiskjá, íslenskt leiðsögukerfi, kælihólf í miðjustokk og fleira. Bíllinn er með gott pláss frammí fyrir ökumann og farþega og afturí er pláss fyrir þrjá farþega. Það fer því vel um alla í innanrýminu. Ökumaður hefur góða yfirsýn úr þessum stóra bíl enda er setið hátt í bílnum. Farþegar njóta þess líka. Bakkmyndavél er staðalbúnaður sem kemur sér vel. Það veitir svo sem ekki af þegar um svo stóran bíl er að ræða. Lengd bílsins er 5.359 mm, breiddin er 2.163 og hæð bílsins er 1.848 mm. Hæð undir lægsta punkt er 237 mm. Eigin þyngd bílsins er 2.309 kg.

213 hestafla vél

Ranger í Wildtrak útfærslunni er með 213 hestafla dísilvél sem togar 500 Nm og nýrri mjög góðri 10 gíra sjálfskiptingu. Aksturseiginleikar pallbílsins eru fínir og koma raunar á óvart að mörgu leyti. Manni líður eins og verið sé að keyra fínan jeppa en ekki pallbíl. Fjöðrunin er góð og það finnst sérstaklega þegar ekið er á malarvegi. Þetta er stór og mikill bíll og tekur sitt pláss og það er nú kannski helst að það er ekki eins auðvelt að leggja í stæði og á venjulegum fólksbíl. Það þarf alla vega að hafa meira fyrir því. Beygjuradíusinn er ekkert sérstakur og er það helsta sem ég finn að bílnum. Annars er krafturinn ágætur í vélinni en ekkert meira en það og hann er 10,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Nýja sjálfskiptingin gerir mikið fyrir aksturseiginleikana. Bíllinn liggur vel á veginum og stýringin er góð. Eyðslan er frá 8,2 lítrum á hundraðið miðað við blandaðan akstur samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. CO2 losunin er 235 g/km. Öryggisbúnaðurinn er einnig mjög mikill í bílnum. Þar má nefna árekstrarvara sem nemur einnig gangandi og hjólandi vegfarendur, veglínuskynjari, umferðarskiltalesari, hraðastillir með takmarkara o.m.fl.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnubílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Stikkorð: Ford  • Ranger