*

Bílar 24. september 2021

Stór og tæknivæddur lúxusbíll

Nýr Mercedes-Benz EQV rafbíll er mættur til landsins. Stór lúxusbíll sem rúmar allt að átta farþega auk bílstjóra.

Róbert Róbertsson

E QV er hreinn rafbíll og raunar rafmögnuð útgáfa af V-Class sem hefur notið mikilla vinsælda sem atvinnubíll. Útlitslega er ekki mikill munur á bílunum. Þó eru hönnunaratriði sem voru sérstaklega þróuð fyrir EQ-fjölskyldu Mercedes-Benz eins og Black-Panel-grillið sem gefa bílnum fallegt og í leiðinni framsækið yfirbragð.

EQV er tæknivæddur í innanrýminu sem er vel búið þægindum og lúxus. Sem dæmi má nefna nýja 12,25" MBUX-margmiðlunarskjáinn með vönduðu gleryfirborði, fallega hönnun lofttúðanna og ríkulegt skrautið. MBUX-margmiðlunarkerfið er sérlega þægilegt og gefur ökumanni og farþegum óendanlega möguleika í afþreyingu og upplýsingum. Það er aðgengilegt og þægilegt og hægt að stjórna með raddskipunum, snertingu eða bendingum. LED-stemningslýsingin að innan er sérlega skemmtileg.

365 km drægni á rafmagninu

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir eins og búast má við frá lúxubílaframleiðandanum Mercedes-Benz. Raunar ótrúlega mjúkur akstur miðað við stærð á bíl. Bíllinn er þéttur, liggur ótrúlega vel og er algjörlega hljóðlaus. Bíllinn er með fimm aksturskerfi sem valin eru með aksturskerfarofanum í miðstokknum. Það er alltaf skemmtilegt að geta skipt á milli aksturskerfa eftir því hvernig maður vill keyra bílinn.

EQV er með 90 kWh litíumíonrafhlöðu undir gólfinu sem skilar bílnum 204 hestöflum og drægnin er um 365 km samkvæmt af WLTP staðli. Hámarkstog bílsins er 362 Nm. Bíllinn er 12,1 sekúndu úr kyrrstöðu í hundraðið. Hægt er að hlaða bílinn upp í allt að 80% rafhlöðu á innan við 45 mínútum.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Atvinnubílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér