*

Tölvur & tækni 26. febrúar 2017

Stóra snjallsímamessan

Árleg höfuðmessa farsímatækninnar, Mobile World Congress (MWC), hefst í Barcelona á morgun.

Andrés Magnússon

Von er á liðlega 100.000 gestum á stóru snjallsímamessuna í Barcelona, en meira en helmingurinn af þeim eru stjórnendur fyrirtækja, þar af meira en 5.000 forstjórar. Á þessari kaupstefnu eru meira en 2.200 fyrirtæki með bása og sýningarsvæði, en alls er um 10.000 m2 gólflötur lagður undir sýninguna.

Meðal helstu fyrirtækja á MWC eru AT&T, Cisco, Darkmatter, Deutsche Telekom, DJI, Ericsson, Google, Huawei, IBM, Lenovo, LG, NEC, Nokia, Qualcomm, Samsung, SK Telecom, Sony, Telefonica, Verizon, VMware, Vodafone og ZTE. Þó að sá listi sé mjög símkenndur, þá nær orðið „farsímatækni“ ekki vel utan um það sem „mobile“ er orðið. Það er miklu meira en aðeins farsímar og tekur til ótal tækniþátta annarra, sem flestir eiga það sameiginlegt að vera viðriðnir þráðlausa tækni, fjarvinnslu og fleira.
Þar á meðal er margháttuð framþróun bíla – ekki síst hinna fyrirhuguðu sjálfakandi bíla – en meðal nýrra þátttakanda á sýningunni eru Mercede-Benz, Volkswagen og Ford.

Af upptalningunni hér á undan sakna þó sjálfsagt ýmsir Apple, en ástæðan er einföld: Apple tekur ekki þátt í sýningum af þessu tagi og kýs að skipuleggja eigin viðburði. Menn þurfa raunar ekki að bíða þess næsta lengi, hann er ráðgerður í mars. Þar er gert ráð fyrir nýjum iPöddum (sjá vinstri dálk hér á síðunni), hugsanlega forsmekk af keppinaut við Amazon Echo og 4K AppleTV. Hins vegar verða menn sennilega að bíða fram í september eftir næsta iPhone, en hann á 10 ára afmæli í ár.

Svæðaskipting leiðir áherslurnar í ljós

MWC er margskipt, annað er óhjá­kvæmilegt um slíkan fjölda fyrirtækja á öðrum eins fleti. Meðal sérstakra svæða á henni er appa-pl­ánetan, skýjaskálinn, drónasvæðið, græntæknivellir, GSMA-skálinn, peningatankurinn, hlutanets-skálinn (IoT), graphene-náman og klæðatækniskálinn, auk sérstaks sýningarsvæðis, sem skipt er eftir þjóðerni fyrirtækja.

Auk þessa er heilmikil aðstaða fyrir fólk til þess að sinna netagerð gagnvart hvert öðru, en milli helstu skála eru garðar og veitingaaðstaða til þess arna. Í kringum sýninguna er svo vitaskuld heilmikið samkvæmislíf á vegum einstakra fyrirtækja og samtaka.

Það er því nóg við að vera á sýningunni sjálfri og viðburðum henni tengdum, svona milli þess sem menn fara á Römbluna að slaka. Þar suður í Katalóníu er komið hávaðavor með 18°C hita.

En við hverju má helst búast á MWC í ár? Mörg fyrirtæki eru nú þegar farin að dæla út fréttatilkynningum um hvers kunni að vænta og á ýmsum vefjum má lesa misskipulagða leka um nýjustu græjurnar.

Það voru ekki mörg stórtíðindi af farsímamarkaði á CES-sýningunni í Las Vegas í liðnum mánuði, svo ýmsir búast við að fleira verði kynnt í næstu viku. Það er þó ekki þannig að aðeins sé verið að kynna einstök tæki á MWC. Ekki síður fylgjast menn þar með tíðindum af 5G tækninni, sem óðum er að verða að veruleika, fyrirtæki eins og Intel og Qualcomm kynna nýja og betri örgjörva og þar fram eftir götum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Barcelona  • farsímar  • tækni  • snjallsímar  • Mobile World Congress