*

Sport & peningar 25. júlí 2019

Stórfé í húfi í kvöld

Íslensku liði hafa tryggt sér 245 milljónir króna fyrir þátttöku í Evrópukeppnum í ár. 80 milljónir til viðbótar eru undir í kvöld.

Íslensku liðin í Pepsi Max deild karla hafa tryggt sér 245 milljónir króna fyrir þátttöku í forkeppni Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildarinnar á þessu ári. Þetta er þrátt fyrir að Stjarnan hafi eitt liða komist áfram úr sínu fyrsta einvígi í forkeppnunum í ár.

80 milljónir til viðbótar eru undir í kvöld þegar Stjarnan mætir Espanyol frá Spáni og Valur mætir Ludogorets Razgrad frá Búlgaríu. Þau lið sem fara áfram úr einvígjunum fá tæpar 40 milljónir króna í verðlaunafé hvort um sig.

Við ramman reip verður að draga fyrir íslensku liðin. Espanyol lenti í 7. sæti í spænsku úrvalsdeildinni í vor. Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, sagði í viðtali við mbl.is um helgina að líkurnar væru 0,01% að Stjarnan kæmist áfram. Ludogorets hefur fjórum sinnum á undanförnum fimm árum farið í riðlakeppni Meistaradeildar eða Evrópudeildarinnar og lengst komist í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar. Valur datt úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu gegn Maribor frá Slóveníu en fær annan séns í Evrópudeildinni.

Valur fær 800 þúsund evrur, um 110 milljónir króna, í verðlaunafé fyrir þátttöku í forkeppnum Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar, jafnvel þó liðið detti úr leik gegn Ludogorets. Stjarnan sem komst í 2. umferð eftir að hafa slegið út Levadia Tallinn frá Eistlandi með marki á síðustu mínútu framlengingar, hefur þegar tryggt sér um 70 milljónir króna. Breiðablik og KR duttu bæði út í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Liðin eiga von á 33 milljónum hvort um sig í verðlaunafé. KR átti litla von gegn toppliði Molde í Noregi og tapaði 7-1. Meiri eftirsjá er líklega hjá Breiðablik sem féll úr leik gegn Vaduz frá Liechtenstein. Sigur hefði tryggt liðinu 36 milljónir króna í verðlaunfé.