*

Veiði 15. október 2016

Stórlaxasumar í Aðaldalnum

Formaður Veiðifélags Laxár segir að líklega hafi veiðst á annað hundrað 100 sentímetra laxar í ánni sumar.

Trausti Hafliðason

Ein af þeim ám sem skilaði fínni veiði í sumar var Laxá í Aðaldal, sú fræga stórlaxaá. Þar veiddust 1.207 laxar sem er þriðja besta veiðin í ánni frá aldamótum. Það var einungis árin 2010 og 2008, sem veiðin var betri. Í fyrra var veiðin reyndar nánast jafngóð, en þá veiddist 1.201 lax. Frá og með árinu 2000 hefur veiðin að meðaltali verið 1.014 laxar á ári.

Veitt er á 18 stangir í Laxá á Aðaldal og er ánni skipt í nokkur veiðisvæði. Alls eru 8 stangir á svæði Laxárfélagsins, 8 til 10 á Nessvæðinu og ein í Árbót.

Jón Helgi Björnsson, formaður Laxárfélagsins, segir að veiðin hafi verið góð í Aðaldalnum í sumar.

„Stórlaxaveiðin var alveg sérstaklega góð og hefur líklega ekki verið jafn góð í nokkra áratugi," segir Jón Helgi. „Þessi mikla stórlaxaveiði var það sem einkenndi sumarið hjá okkur. Annað sem var sérstakt var að mikið af þessum fiski var gengin í ána áður við opnuðum 20. júní. Í upphafi tímabilsins var stórlax að veiðast úti um alla á, sem er að sumu leyti einstak en var þó algengt í kringum árið 1974."

Jón Helgi segir að hlutfall stórlaxa af heildarveiðinni í Laxá í Aðaldal hafi alltaf verið mjög hátt.

„Þegar stórlaxinn var í niðursveiflu þá hitti það Laxá mjög illa fyrir. Núna þegar ástandið á stórlaxinum er að skána þá rís Laxá upp. Við höfum svolítið verið að bíða eftir því að fá svona stóra árganga af stórlaxi og það gerðist í sumar."

75% stórlaxar

Að sögn Jóns Helga er hlutfall stórlaxa af heildarveiðinni í Aðaldal venjulega kringum 50%. Hann segir að ekki sé búið að taka saman nákvæmlega hvert hlutfallið hafi verið í sumar en hann gruni að það hafi verið í kringum 75%.

„Smálaxagöngurnar voru heldur daprar en þó einhverjar. Laxá er frábrugðin öðrum ám, sem eru kaldar, að því leyti að hún skilar alltaf sínum seiðaárgangi út í sjó. Helgast að af því að Mývatn er svo heitt. Þess vegna er veiðin oft tiltölulega jöfn í Laxá og minna um sveiflur en víða annars staðar."

Í sumar bárust margar fréttir úr Aðaldalnum af yfir 100 sentímetra löngum löxum. Spurður hvort hann hafi einhverja tölu yfir fjölda þessara laxa svarar Jón Helgi: „Nei, ég veit það ekki nákvæmlega en ég hef lúmskan grun um að þeir hafi verið yfir hundrað talsins. Ég held að það sé tilfellið.

Stemmningin á meðal veiðimanna var góð í sumar og má reyndar segja að hún hafi verið góð allt síðan við fórum að veiða og sleppa rétt eftir aldamót. Ég trúi því að þetta veiðifyrirkomulag hafi skilað sér í betri stórlaxaveiði undanfarin ár. Stundum eru jákvæðu áhrifin af þessu veiðifyrirkomulagi ofmetin en ég held að þau séu klárlega til staðar og þá sérstaklega á þessum risastóru fiskum."

Dyntótt

Laxveiðin getur verið dyntótt. Það sést til dæmis á því að veiðin í Fnjóská, sem er einungis um 20 kílómetrum vestan við Laxá, var mjög léleg í sumar. Þar veiddust 190 laxar, sem er fjórða lélegasta veiðin í ánni frá aldamótum.

„Það eru tiltölulega einfaldar skýringa á þessu," segir Jón Helgi. „Fnjóská er köld á. Í fyrra var sumarið hundleiðinlegt og mikil snjóbráð. Áin skilaði því ekki seiðunum niður sem skildi. Ég myndi aftur á móti ráðleggja mönnum sem hafa gaman að því að veiða í Fnjóská að kaupa leyfi þar næsta sumar því það hefur væntanlega farið tvöfaldur skammtur af seiðum til sjávar síðasta vor, veðrið og aðstæður voru það góðar."

Jón Helgi segist reyndar eiga von á góðri smálaxaveiði um allt land næsta sumar.

„Sú skoðun mín helgast einmitt af sömu ástæðum og ég nefndi varðandi Fnjóská. Vorið var mjög gott, sem þýðir að það gæti orðið góð smálaxaveiði um land allt en ég held að það verði minna af stórlaxi en var í sumar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.