*

Bílar 10. desember 2014

Stórskemmtilegur lúxussportbíll

Allur aðbúnaður ökumanns er eins og hann getur best orðið í BMW 420d.

BMW 3 hefur verið vinsælasti bíll frá Bæversku mótorverksmiðjunum frá því að hann kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1975. Fyrsta árið voru seldir um 180 þúsund þristar, salan fór hæst í 561 þúsund bíla árið 2002 og á síðasta ári var salan um hálf milljón bíla. Tveggja dyra útgáfan var í boði strax frá fyrsta degi en hún hefur verið um 10% af sölunni á þristinum.

Nafnið á tveggja dyra bílnum er nú fjarki í stað BMW 3 Coupe. Þetta var tilkynnt undir áramót 2012 og kom mörgum á óvart. Hvers vegna að breyta einhverju sem gengur svo vel, spurðu margir? Það kom í ljós þegar BMW frumsýndi 4 Gran Coupe, sem er í raun fjögurra dyra útgáfa af tveggja dyra fjarkanum.

Hönnun bílsins er mjög vel heppnuð, en skyldleikinn við eldri kynslóð leynir ekki. Hann er byggður á 6 kynslóð BMW 3. Bíllinn er aðeins breiðari en þristurinn og jafnframt 10mm lægri. Hann er jafnframt léttari en forverinn, um 25-45 kg eftir vélarstærðum.

Að innan er bíllinn mjög svipaður þristinum. Það fer vel um ökumanninn og öll stjórntæki eru aðgengileg. Bíllinn var í grunnútfærslu að innan með leðuráklæði og því sómasamlegur eins og BMW er von og vísa.

Nánar er fjallað um málið í Bílablaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: BMW