*

Hitt og þetta 24. ágúst 2006

Stóðst Skýrr áhlaupið?

Skýrr greindi frá því fyrir skömmu að skipuriti félagsins hefði verið breytt og var með því verið að staðfesta breytta yfirstjórn eftir áhlaup það sem Síminn hefur gert á starfsmenn félagsins undanfarna mánuði eða allt síðan Dagsbrún náði Kögun frá félaginu. Á tímabili héldu stjórnendur Skýrr að verið væri að gera tilraun til að skrúfa félagið niður og setja það upp annars staðar. Skýrr-menn fullyrða að þetta hafi ekki haft áhrif á tekjustreymi félagsins en munu hafa misst ríflega 10 starfsmenn. Þeir telja það ásættanlegt en á milli 80 og 90 starfsmenn hafi fengið tilboð frá Símanum sem mun þá vera eitt stærsta áhlaup sem sögur fara af. Munu flestir stjórnendur og forritarar Skýrr hafa fengið einhverskonar tilboð. Einnig telja Skýrr-menn að haft hafi verið samband við helstu viðskiptavini þeirra án þess að það hafi borið árangur. Annað félag undir Kögunarsamstæðunni er Verk- og kerfisfræðistofan hf. (VKS) og mun hún einnig hafa orðið fyrir nokkrum skakkaföllum. Af þessu leiðir að menn bíða nokkuð spenntir eftir útspili Símans á þessum vettvangi en þess er að vænta í haust.