*

Hitt og þetta 9. september 2005

Stærsta íþróttahús á Austurlandi rís í Fjarðabyggð

Fullkomið fjölnota íþróttahús og líkamsræktarstöð munu innan tíðar rísa á Reyðarfirði og eru byggingarframkvæmdir þegar hafnar en stefnt er að því að íþróttahúsið verði tekið í notkun næsta vor. Mannvirkin munu gjörbreyta aðstæðum til heilsuræktar og íþróttaiðkunar á Austurlandi en fjölnotahúsið mun rúma knattspyrnuvöll í fullri stærð og 100 metra hlaupabraut.

Fyrirsjáanleg fjölgun íbúa í Fjarðabyggð, m.a. vegna starfsemi álvers Alcoa Fjarðaáls, skapar þörf fyrir bætta aðstöðu til heilsuræktar og íþróttaiðkunar á svæðinu. Eru framkvæmdirnar liður í áætlun sveitarfélagsins um aðgerðir til að mæta fjölguninni og stórbæta þjónustu við íbúana.

Stefnt er að því að framkvæmdum við fjölnotahúsið, Fjarðabyggðarhöllina, ljúki næsta vor og að kostnaður verði um 400 milljónir króna. Þar af mun Alcoa Fjarðaál greiða um 80 milljónir króna sem styrk til uppbyggingar og eflingar íþróttastarfsemi á svæðinu. Í húsinu verður 105x68 metra knattspyrnuvöllur með gervigrasi, 100 metra hlaupabraut ásamt stökkgryfju og 450 manna áhorfendasvæði. Fjarðabyggð hefur samið við verktakann Sveinbjörn Sigurðsson ehf. um að annast byggingarframkvæmdir og er jarðvegsvinna þegar vel á veg komin.

Með tilkomu hússins batnar aðstaða til íþróttaiðkunar á svæðinu verulega, ekki einungis í Fjarðabyggð heldur á Austurlandi öllu. Hægt verður að stunda knattspyrnu allt árið, aðstaða til iðkunar frjálsra íþrótta stórbatnar, auk þess sem þar verður hægt að stunda ýmsa aðra afþreyingu, svo sem göngur og golf. Einnig mun húsið nýtast til margvíslegs móta-og sýningarhalds.

Þá eru hafnar framkvæmdir við fullkomna líkamsræktarstöð á Reyðarfirði sem taka mun til starfa nú í vetur. Fjárfestingafyrirtækið Landsafl byggir húsnæði stöðvarinnar og mun eiga það en leigja sveitarfélaginu samkvæmt samningi. Fjarðabyggð nýtur einnig stuðnings Alcoa Fjarðaáls við þetta verkefni og mun fyrirtækið greiða niður leigugjöld fyrir húsnæðið fyrstu tvö árin. Líkamsræktarstöðin verður opin öllum almenningi á svæðinu en samið hefur verið við fyrirtækið IcelandSpa & Fitness, sem m.a. rekur Sporthúsið og Baðhúsið í Reykjavík, um að taka að sér rekstur hennar.