*

Sport & peningar 12. mars 2013

Stuðningsmenn Liverpool æfir yfir miðaverði

Til stendur að hækka miðaverð ársmiða á leiki Liverpool um allt að 9% á ákveðnum svæðum. Áhangendur segja þetta móðgun.

Áhangendur enska knattspyrnuliðsins Liverpool eru æfir yfir verðlagningu á ársmiða á leiki félagsins næsta vetur og segja hana vera móðgun við trausta stuðningsmenn félagsins.

Á vef BBC kemur fram að verðlagning ársmiða næsta vetrar verður nú í sex þrepum og hækkar um allt að 9% á ákveðnum svæðum á Anfield, heimavelli Liverpool. Um leið var þó tilkynnt að miðar í frægustu stúku Andfield, the Kop, myndi ekki hækka.

Dýrasti ársmiði (e. season ticket) fyrir næsta tímabil kostar um 850 Sterlingspund en sá ódýrasti kostar 710 pund. Þess má geta að ódýrasti ársmiði á leiki erkifjandanna og nágrannanna, Everton, kostar um 430 pund.

Forsvarsmenn Spirit of Shankly, sem er stuðningsmannafélag Liverpool, hafa mótmælt hækkuninni og segja miðaverð hafa hækkað um 716% frá árinu 1989 sem sé langt umfram verðbólgu. Þá segir í tilkynningu frá félaginu að þó vissulega sé það ánægjulegt að ekki standi til að hækka miða í Kop stúkuna geri hátt miðaverð það að verkum að margir af helstu stuðningsmönnum félagsins sjái sér ekki fært að mæta á leiki um þessar mundir. Ian Ayre, framkvæmdastjóri félagsins, hefur svarað því á móti að verðlagning ársmiða hafi lítið breyst síðastliðin tvö ár og því sé þörf á því að hækka þá núna.

Í fyrrnefndri frétt BBC kemur fram að ársmiði á leiki Liverpool sé sá níundi dýrasti í ensku úrvalsdeildinni, en dýrastir hjá Arsenal þar sem dýrustu miðarnir kosta um tvö þúsund pund.

Anfield Road, heimavöllur Liverpool.

Stikkorð: Liverpool  • Anfield Road