*

Heilsa 8. janúar 2015

Stundar dýfingar í Danmörku

Framkvæmdastjóri United Silicon tók skýluna af snaganum í nóvember og keppti í dýfingakeppni eftir tólf ára hlé.

„Ég syndi mikið þegar ég er á Íslandi, þótt ég sé kannski ekkert sérstaklega góður í því, og er til dæmis búinn að finna upp nýja sundaðferð sem er svona blanda af bringusundi og flugsundi. En þegar ég er í Danmörku spila ég tennis og stunda dýfingar,“ segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, þegar hann er spurður hvað hann geri til þess að halda sér í formi.

„Ég tók til dæmis þátt í masters-dýfingakeppni í nóvember þar sem þátttakendur voru frá öllum Norðurlöndunum. Þar keppti ég í dýfingum í fyrsta skipti í tólf ár en lenti samt í öðru sæti. Sá sem vann var 25 ára gamall fyrrverandi Danmerkurmeistari, svo þetta var ekkert lélegur árangur hjá manni sem er tuttugu árum eldri,“ segir Magnús, en hann er gamall atvinnumaður í dýfingum og varð meðal annars Danmerkurmeistari í greininni á sínum tíma.

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá Magnús etja kappi við Orlando Duque, margfaldan heimsmeistara í greininni.