*

Menning & listir 27. júlí 2017

„Stundum þarf ekki meira til að segja góða sögu“

Sycamore Tree sem samanstendur af listamönnunum Gunna Hilmarssyni og Ágústu Evu Erlendsdóttur frumflutti nýtt lag í vikunni en lagið er án efa enn eitt „feel-good“ lagið sem kemur frá tvíeykinu.

Kolbrún P. Helgadóttir

„Okkur langaði að senda frá okkur smá birtu og sól svona yfir mitt sumarið. Við erum búin að verið að leika okkur með þetta lag frá því í fyrrasumar en aldrei klárað það alveg fyrr en núna þegar það allt í einu virtist þurfa að komast út. Þannig er það stundum,“segir Gunnar Hilmarsson höfundur lagsins Bright New Day sem er nýjasti afrakstur Sycamore Tree sem hefur unnnið hörðum höndum að því að skapa ljúfa tóna að undanförnu.   

Gunni segir lagið í raun ekki hafa mátt koma út fyrr né síðar. „Júlí er frábær mánuður fyrir sól og hlýja tóna.“ Hann segir þetta einfaldasta lagið þeirra hingað til en jafnframt það sem hefur verið lengst í vinnslu. „Lagið er nú samt dásamlega stutt, eða aðeins rétt rúmar tvær mínútur en stundum þarf ekki meira til þess að segja góða sögu.“

Fyrsta plata Sycamore Tree mun koma úr síðar á árinu og mun því fylgja tónleikahald.

Hlustaðu á lagið hér: https://www.youtube.com/watch?v=-5AiTHDwasQ&t=18s