*

Veiði 17. desember 2016

Sturla sér um Laxá á Ásum

Veiðisvæði Laxár á Ásum stækkar mikið vegna þess að búið er að leggja Laxárvatnsvirkjun niður — stöngum fjölgar í fjórar.

Trausti Hafliðason

Sturla Birgisson, er landsfrægur matreiðslumeistari en jafnframt mikill veiðimaður. Í veiðinni hefur hann sinnt leiðsögn og einn af hans fastakúnnum síðustu ár hefur verið tónlistarmaðurinn Eric Clapton, sem komið hefur til landsins reglulega til að veiða í Vatnsdalsá og Laxá á Ásum.

Fyrirtækið Salmon Tails hefur verið með Laxá á Ásum á leigu frá árinu 2012. Samningurinn rann út í sumar og síðasta vetur samdi veiðifélag Laxár á Ásum við Laxás ehf. sem er félag í eigu Sturlu og eiginkonu hans Freyju Kjartansdóttur.

Sturla segir að ýmsar breytingar verði gerðar á næsta ári. „Stærsta breytingin er sú að Rarik hefur lagt niður Laxárvatnsvirkjun, sem byggð var á fjórða áratug síðustu aldar. Við þessa breytingu mun rennsli í efri hluta Laxár á Ásum þrefaldast."

„Þetta er mjög gleðilegt því veiðisvæðið mun lengjast úr 8 kílómetrum í 15 og ef við tökum ósasvæðið með verður veiðisvæði

Laxár á Ásum 18 kílómetra langt," segir Sturla. „Fyrir daga virkjunarinnar var veitt á fjórar stangir í ánni en eftir að hún var byggð var stöngum fækkað í tvær. Nú höfum við tekið ákvörðun um að fjölga stöngum aftur í fjórar."

Svítur og gufubað

Veiðihúsið Ásgarður var byggt árið 2012 en í haust var farið í frekari framkvæmdir og húsið stækkað eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt. Bætt verður við tveimur svítum, sem verða með tvöfaldri hurð sem opnast út á verönd og gufubaði. Einnig verður byggð ný vöðlugeymsla og starfsmannahús. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum áður en veiði hefst næsta sumar.

Sturla segir að þar sem verið sé að fjölga stöngum úr tveimur í fjórar og stækka veiðihúsið hafi verið tekin ákvörðun um að bæta þjónustuna.

„Nú verður eldað ofan í alla veiðimenn. Það verður sem sagt skyldufæði. Maturinn og þjónustan verða í hæsta klassa."

Ósasvæðið og Fremri Laxá

Auk þess vera með fjórar stangir á laxasvæðinu er sjóbirtings- og sjóbleikjuveiði á ósasvæðinu, sem er þriggja kílómetra langt. Þar veiðast reyndar líka alltaf snemmgengnir laxar á hverju vori. Með ósasvæðinu fylgir gamla veiðihúsið við Laxá á Ásum en veiðin á svæðinu hefst 15. maí  og er veitt á tvær stangir þar til laxveiðin hefst 20. júní. Eftir það fylgir ósasvæðið með laxasvæðinu þar til 8. júlí.  Þá munu veiðimenn í Laxá á Ásum til dæmis geta haft eina af fjórum stöngum niður við ósa. Eftir 8. júlí verða aftur tvær stangir sérstaklega seldar á ósasvæðið.

Sturla sér einnig um sölu í Fremri Laxá á Ásum, sem fellur úr Svínavatni í Laxárvatn. Áin er ein allra besta silungsveiðiá landsins en þar veiðast í kringum fjögur þúsund urriðar á hverju sumri og nokkrir laxar. Í Fremri Laxá eru seldar þrjár stangir og veiðihús fylgir með í kaupunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Stikkorð: Laxveiði  • Laxá á Ásum  • Lax  • Stangveiði  • Sturla Birgisson