*

Menning & listir 28. september 2013

Sturlaðir Prúðuleikarar

Hann er yndislega klikkaður húmorinn hjá Prúðuleikurunum.

Lára Björg Björnsdóttir

Það er nóg fyrir mig að sjá ljósmynd af froskinum Kermit eða Svínku til að hverfa aftur til gömlu góðu daganna þegar heimurinn var aðeins einfaldari og aðeins fyndnari. Muniði hvað Prúðuleikarnir voru skemmtilegir? Hvað þetta var ógurlega yndislega klikkaður húmor? Í gamla daga þegar fólk kunni og gat var lögð miklu meiri áhersla á skemmtanagildið í barnatímunum og börnum treyst til að hafa þroskaðan og þróaðan húmor, sem þau vissulega hafa. Hver hefur sýrðari húmor en lítil börn?

Og þvílíkur munur sem það er að horfa á heiðarlegar brúður en ekki fullorðna leikara tala með barnaröddu en slíkt er hugsanlega ein mest ógnvekjandi tegund af barnaefni sem hugsast getur.

En aftur að Prúðuleikurunum dásamlegu. Það sem var líklega skemmtilegast við þá er að brúðurnar voru bara alls ekkert svo prúðar. Prúðuleikararnir voru í ruglinu. Þeir voru algjörlega gólandi galnir. Þetta var eins hellaður barnatími og hugsast gat. Byrjum á Svínku. Færi hún í sálfræðigreiningu í dag kæmi eflaust út að hún væri narssisisti með mikilmennskubrjálæði á lokastigi. Og með mjög frjálslegan stíl þegar kemur að andlitsförðun. Kermit var hálfgerður aumingi greyið. Meðvirkur og lét vaða yfir sig aftur og aftur. Og það þótti manni alltaf pínu fyndið. Dýri á trommunum? Í krónískri amfetamínvímu. Sænski kokkurinn var eins og hann væri nýstiginn út úr hassbúllu í Amsterdam.

Það má síðan segja að brúðuþátturinn Búrabyggð, sem var framleiddur af Jim Henson líkt og Prúðuleikararnir voru, hafi komist nálægt dýrðinni sem upprunalegu Prúðuleikararnir voru. Það er ótrúlegt hvað druslulegar og illa hirtar brúður með ruslahaug í bakgrunni, ruglandi og bullandi og virkandi hálffullar, geta höfðað vel til barna. Börn þurfa smá rugl og steiktan húmor. Á meðan foreldrar hafa tilhneigingu til að reyna að hafa yfirborðið slétt og fellt þá vita börnin betur. Þau vita alveg að mamma og pabbi eru oft eins og prúðuleikararnir og sulla stundum of miklu rauðvíni í sósurnar og gleyma að setja í skóinn.

Það sem er kannski best við þetta allt saman er hvað maður fann sig í þessum kvikindum. Ég man hvað mér fannst gaman að horfa á Dýra sturlast á trommunum og Svínku mála sig. Það þarf kannski ekki að leita lengra eftir skýringu á því hvers vegna ég er eins og ég er í dag.

Pistill Láru Bjargar Björnsdóttur um klassíkina birtist í Viðskiptablaðinu 26. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.