*

Menning & listir 25. mars 2014

Stuttmyndin Sker slær í gegn

Kostaði innan við 200.000 kr.

Kári Finnsson

„Einu sinni vorum við nokkrir að keyra frá Patreksfirði þar sem við höfðum frumsýnt stuttmynd eftir okkur. Þá er okkur litið yfir Arnarfjörðinn og heyrum sögu af ferðamanni sem siglir út í sker og lendir í smá veseni þar. Okkur fannst þetta svo skemmtileg saga að ég fór heim og skrifaði handritið af sögunni um kvöldið og svo réðumst við bara í að taka þetta upp stuttu síðar,“ segir Eyþór Jóvinsson, leikstjóri stuttmyndarinnar Sker sem var nýlega valin til þátttöku í alþjóðlegri stuttmyndasamkeppni á Tribeca-kvikmyndahátíðinni sem hefst 16. apríl næstkomandi.

Kostaði innan við 200.000 kr.

Að sögn Eyþórs gekk fjármögnun myndarinnar vel. „Við erum fimm hérna á Vestfjörðum sem erum með lítið kvikmyndafélag sem við köllum Glámu. Gerum stuttmyndir og heimildarmyndir og annað slíkt. Þessi mynd var tekin yfir eina helgi og kostnaðurinn var innan við 200.000 kr. Hún er náttúrulega unnin í sjálfboðavinnu en við erum bara sex sem komum að gerð myndarinnar.“ Sker var ekki einungis valin til þátttöku á Tribeca-hátíðinni heldur var hún einnig valin í stuttmyndaval kvikmyndahátíðarinnar Aspen Film í Aspen í Colorado.

Eyþór segist hafa sent myndina á margar kvikmyndahátíðir og er ánægður með viðtökurnar.

„Þetta er náttúrulega mjög alþjóðlega væn mynd og hátíðarvæn. Ekkert talað í henni, myndræn og auðskiljanleg saga. Það sem vakti fyrir okkur var að senda hana sem víðast og sjá hvernig viðbrögð hún myndi fá. Það felst mikil viðurkenning í því að komast inn á svona hátíðir. Það þýðir að nú verður auðveldara að fá fjármagn fyrir stærri fyrirtæki sem eru á borðinu hjá okkur og athygli fyrir þau verkefni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Stikkorð: Eyþór Jóvinsson  • Stilla