*

Veiði 5. janúar 2016

Stuttur tími til stefnu

Þó úti sé snjór eru stangveiðimenn beðnir að gleyma því ekki að sækja um veiðileyfi.

Ansi stór hluti íslenskra veiðimanna er í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur (SVFR) það er því ekki úr vegi að minna menn á að frestur til að sækja um veiðileyfi í svokallaðri félagsúthlutun eftir tvo daga. Síðasti dagur til að senda inn umsókn er fimmtudagurinn 7. janúar. Þau veiðileyfi sem ekki seljast í úthlutuninni fara á almennan markað.

Á meðal laxveiðiáa sem Stangaveiðifélagið er með á leigu eru Langá, Haukadalsá, Gljúfurá í Borgarfirði, Hítará og auðvitað Elliðaárnar. Vegna mikillar ásóknar í Elliðaár er dregið úr umsóknum. Einnig er félagið með fjölmargar silungsveiðiár á sinni könnu og má þar til dæmis nefna Laxá í Mývatnssveit, Laxá í Laxárdal og Varmá, sem rennur í gegnum Hveragerði.

Árni Friðleifsson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segist stefna að því að sækja um stöng í Langá í byrjun september.
„Reynslan af því að taka maðkinn úr Langa var gríðarlega góð síðastliðið sumar og áin var kraumandi af laxi í september," er haft eftir Árna í tilkynningu. „Einnig er í deiglunni að ég og mínir veiðifélagar sæki um holl í Haukadalsá eða Hítará. Þar erum við að stefna á þann tíma sem er með ódýra fæðinu. Nú svo er umsókn í Elliðaám einnig árviss viðburður. Nú verður maður að krossa fingur og vona að tölvuútdráttur verði manni hliðhollur þetta árið. Að lokum hvet ég alla félagsmenn til að taka þátt í umsóknarferlinu. Það er alltaf hægt að finna veiðileyfi við sitt hæfi hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur”

Hægt er að nálgast frekar upplýsingar á vef Stangaveiðifélagsins.