*

Tölvur & tækni 15. ágúst 2014

Stuttvarpi sem kemst á baðherbergið

Epson EB-425W stuttvarpinn er með kúptri linsu sem gerir hann fjölhæfari en venjulegan skjávarpa.

Jóhannes Stefánsson

Á allra seinustu árum hefur skemmtileg og handhæg tegund skjávarpa verið að ryðja sér til rúms. Um er að ræða skjávarpa þar sem linsan er kúpt þannig að tækið þarf ekki að vera nema mjög skammt frá vegg til að varpa myndinni upp. Á ensku nefnast slíkir skjávarpar „short throw projectors“, sem mætti íslenska sem stuttvarpa.

Einkenni og jafnframt einn helsti kostur stuttvarpa er að þeim þarf ekki að koma fyrir í herbergi þar sem óhindruð sjónlína er í nokkra metra frá skjávarpa að vegg. Stuttvarpa má þess vegna nota í herbergjum sem eru mjög lítil eða þar sem erfitt er að tryggja að óhindruð sjónlína haldist – til dæmis þar sem mikið af fólki gengur fyrir skjávarpann.

Viðskiptablaðið fékk Epson EB-425W stuttvarpann í hendur frá Tölvulistanum og prófaði gripinn.

Linsan eins og auga á fisk

Það kom strax í ljós þegar græjan var tekin úr kassanum að hér var ekki um hefðbundinn skjávarpa að ræða. Linsan er eins og auga á fisk, kúpt og útstæð. Stuttvarpinn er með 1280 x 800 pixla upplausn svo hann varpar mynd í víðskjárhlutföllunum 16:10. Peran er 2,500 lúmens, sem er í meðallagi mikil birta.

Þó að það sé varla hægt að tala um hann sem sérhæfðan ferðaskjávarpa er hann þokkalega meðfærilegur og vegur 3,8 kíló. Uppsetningin er mjög auðveld sem gerir hann í raun hentugan til að taka með og setja upp á skömmum tíma.

Tengimöguleikarnir eru þar að auki miklir og tækið er með innbyggðan 16w mono hátalara – sem er þokkalega kraftmikill þó að hljómgæðin séu ekki framúrskarandi. Stuttvarpinn býður upp á 2 VGA tengi, 1 S-video, 1 composite video, 1 HDMI tengi, USB tengi og 1 VGA útgang. Hann tekur líka við míkrafón, LAN-snúru og Wi-fi með sérstökum aukahlut. Með fylgir þægileg fjarstýring sem vinnur vel með notendavænu viðmóti stuttvarpans.

Bíó í baðkarinu eða fundur hjá sprotunum

Helsti kosturinn hlýtur að vera sá að það er hægt að koma græjunni fyrir í næstum því öllum herbergjum. Hann varpar upp flennistórri mynd og þarf ekki nema rúmlega 80 sentimetra fjarlægð frá vegg til þess. Það er varla hægt að ímynda sér herbergi þar sem ekki er hægt að koma linsunni í 80 sentimetra fjarlægð frá vegg. Það er ekkert óhugsandi að nota gripinn til að horfa á lauflétta gamanmynd í baðkarinu. Það er kannski frekar vandamál að veggur í litlu herbergi er ekki nægilega stór til að taka við myndinni – sem má leysa með því að færa stuttvarpann nær veggnum.

Í góðum birtuskilyrðum er myndin mjög góð, en þó að hann sé notaður um hábjartan dag innandyra er myndin fullkomlega nothæf. Í litlum fundarherbergjum og kennslustofum ætti hann að koma að góðum notum. Í rauninni ætti hann að vera sérstaklega hentugur til kennslu því vegna þess hversu mikill halli er á myndvörpuninni er nánast enginn skuggi sem fellur á myndina, þó að maður standi nokkuð þétt upp við hana. Þannig er auðvelt að ímynda sér að það sé þægilegra fyrir kennara að athafna sig fyrir framan mynd sem kemur úr stuttvarpa borið saman við skjávarpa.

Helsti ókosturinn hlýtur þó að vera rekstrarkostnaðurinn. Peran dugir í allt að 6.000 klukkustundir, sem er ágætur endingartími miðað við skjávarpa. Aftur á móti kostar ný pera um 75.000 krónur, svo það getur verið nokkuð blóðugt þegar kemur að því að skipta um hana. Epson EB-425W fæst á 189.990 krónur í Tölvulistanum.

Í hnotskurn: Epson EB-425W stuttvarpinn er eins og venjulegur skjávarpi með breiðara notkunarsviði. Traustur ferðaskjávarpi sem er í raun meðfærilegt fyrirlestrakerfi með kröftugan hátalara og tengi fyrir míkrafón. Hentar þeim sem eru með lítið fundarherbergi og kennarar sem notast mikið við skjávarpa ættu að skoða þessa græju. Ekki má gleyma þeim sem vilja risaskjá á baðherbergið.

Jóhannes er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Litaskerpan er ágæt í dagsbirtu, eins og sést hér að ofan, og mjög góð við betri birtuskilyrði.

Eins og sjá má varpar stuttvarpinn stórri mynd úr lítilli fjarlægð. Hér sést hann í dagsbirtu með sólskin úti.

Stikkorð: Epson  • Skjávarpar