*

Tölvur & tækni 12. september 2012

Styttist í nýjan iPhone 5

Margt hefur lekið út um það sem mun prýða nýjasta iPhone-símann frá Apple. Síminn verður kynntur í dag.

Hulunni verður svipt af nýjasta iPhone-snjallsíma Apple á ráðstefnu fyrirtækisins í San Francisco um fimmleytið að íslenskum tíma í dag. Starfsmenn fyrirtækisins hafa unnið að því hörðum höndum að undirbúa ráðstefnuna, svo sem með því að mála ráðstefnuhúsið í ýmsum litum.

Tæknifíklar, sérstaklega þeir sem geta vart hugsað sér daginn án tækjabúnaðar frá Apple, eru á tánum. Stjórnendur Apple hafa í gegnum tíðina vegið þögulir sem gröfin í aðdraganda kynningarinnar. Miðað við það sem þó hefur lekið hefur út má gera ráð fyrir að fátt komi á óvart.

Þetta er það helsta sem flestir reikna með:

  • Lengri skjár, úr 3,5 tommu í 4 tommu skjá
  • Afturhluti símans verður að hluta til úr gleri og að hluta til áli
  • Hann verður enn þynnri en fyrri gerðir.
  • Nýtt „dock“ tengi. Skipt út 30 pin yfir í annað hvort 19 pin eða 9 pin
  • Heyrnatólatengið verður fært frá efri hluta símans á neðri. 

Greinahöfundur tæknitímaritsins CNet greindi svo frá því í dag að svo virðist sem upplýsingar um nýjasta símann hafi óvart verið birtar á vefsíðu Apple. Þar hafi m.a. verið staðfest að síminn styðji við LTE-tækni, sem segja má að sé fjórða kynslóðin í gagnaflutningstækni. Þá virðist sem nafnið á nýja símanum hafi lekið út fyrir mistök. Það er reyndar ekkert sérlega frumlegt: iPhone 5.

Hér er hægt að fylgjast með beinni lýsingu á kynningu Apple á nýja símanum.

Stikkorð: iPhone  • iPhone 5