*

Sport & peningar 12. desember 2015

Styttist í stóru stundina

Seinna í dag skýrist hvaða mótherja Íslands fær í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu.

Dregið verður í riðla fyrir Evrópumeistaramótið í Frakklandi klukkan 17 í dag. Drátturinn fer fram í París og verður í sýndur í beinni útsendingu á Skjá einum, sem og á heimasíðu Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA). 

Liðunum er skipt í fjóra styrkleikaflokka þar sem bestu liðin eru í fyrsta styrkleikaflokki og svo koll af kolli. Ísland er í fjórða styrkleikaflokki.

  1. styrkleikaflokkur: Spánn, Þýskaland, England, Portúgal og Belgía. Viðskiptablaðið telur að upp á möguleikann til að komast áfram upp úr riðlinum væri best fyrir Ísland að lenda á móti Portúgal en skemmtilegast væri að lenda á móti Englandi. Verst er líklega að lenda á móti Þýskalandi eða Spáni.
  2. styrkleikaflokkur: Ítalía, Rússland, Sviss, Austurríki, Króatía og Úkraína. Allt eru þetta góð lið en Viðskiptablaðið telur að best væri lenda á móti Austurríki en verst væri að lenda á móti Ítölum, það væri hins vegar líka skemmtilegast.
  3. styrkleikaflokkur: Tékkland, Svíþjóð, Pólland, Rúmenía, Slóvakía og Ungverjaland. Ísland á góðan möguleika á að vinna öll þessi lið. Pólverjar eru samt án efa með sterkasta liðið í þessum flokki og því væri slæmt að lenda á móti þeim. Viðskiptablaðið telur að það væri algjör draumur að lenda á móti Ungverjum. 

Fjölmargir stuðningsmenn íslenska landsliðsins hyggjast fara til Frakklands og fylgjast með liðinu. Á heimasíðu Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA) kemur fram að hægt verði að sækja um miða þann 14. desember eða á mánudaginn. Miðaðverðið er mjög misjafnt. Ódýrustu miðarnir í riðlakeppninni kosta 3.600 krónur (25 €) en þeir dýrustu 20.600 krónur (145€). Miðaverðið hækkar síðan þegar líður á keppnina og á úrslitaleikinn kosta ódýrustu miðarnir 12.000 krónur (85€) en þeir dýrustu 127.000 krónur (895€).

Hér má sjá hvar verður leikið í Frakklandi og upplýsingar um vellina.