*

Sport & peningar 27. mars 2017

„Sú sem hafði stærra hjartað vann“

Sunna Rannveig Davíðsdóttir (2-0) barðist við Mallory Martin (1-1) í atvinnuviðureign í MMA /blönduðum bardagalistum í fyrrakvöld. Á endanum fengu dómararnir það hlutverk að skera úr um úrslitin og voru allir dómararnir sammála um að Sunna hafi unnið.

Kolbrún P. Helgadóttir

Þegar bardagakvöldið var uppgert þá var þessi bardagi jafnframt valinn “Fight Of The Night” eða “bardagi kvöldsins” og felur það í sér fjárhagslegan ávinning fyrir báðar bardagakonurnar.

Jón Viðar Arnþórsson yfirþjálfari og forseti íþróttafélagsins Mjölnis hefur unnið mikið með Sunnu í gegnum árin fylgt henni í flestar hennar viðureignir. Hann hafði þetta um aðdraganda bardagans og bardagann sjálfan að segja;

“Sunna hefur eitthvert það öflugasta bardagahjarta sem ég hef nokkurn tímann  vitað um. Hún hefur engan ótta við því að fara í búrið og berjast. Fyrir bardaga, áður en við byrjum að hita upp, þá leggst hún gjarnan á dýnu með heyrnatólin á sér, hugleiðir og stundum virðist hún sofna. Að sjá þetta gerast getur tekið andstæðinginn algjörlega á taugum. Svo kveikir hún bara á vélinni þegar tíminn er til kominn, hitar vel upp og fer síðan í búrið algjörlega einbeitt. Hún er fædd í þetta.”

Bardaginn var stríð

Jón Viðar hafði veg og vanda af undirbúningi Sunnu fyrir bardagann og var ásamt Árna Ísakssyni og skosku UFC bardagakonunni Joanne”Jo Jo” Calderwood í horninu hennar. Þeir sem horfðu á bardagann gátu heyrt nokkuð greinilega í þeim á meðan á bardaganum stóð, enda er hlutverk þess sem kallar leiðbeiningar af hliðarlínunni til þess sem er að berjast gríðarlega mikilvægt “Þessi bardagi var stríð! Algjör klassík og eitthvað sem verður gaman að horfa á aftur og aftur. Þessar stelpur eru báðar eins harðar og hægt er að vera og hvorug gaf tommu eftir. Þær ætluðu sér báðar að klára bardagann og þær mættu báðar til þess að berjast. Þetta voru þrjár lotur af alvöru átökum og það fór reglulega kliður um salinn. Ég held það hafi ekki komið neinum á óvart að þessi bardagi var valinn “Fight Of The Night” og það kom heldur engum á óvart að Sunna hefði unnið hann þó svo að þetta hafi svo sannarlega ekki verið einstefna. Það var augnablik í annarri lotunni þar sem Mallory hitti öflugu höggi á Sunnu sem greinilega beit á henni og þar kom í ljós úr hverju Sunna er gerð. Hún vinnur svo vel úr mótlæti og hún ýtir sér svo fast þegar á reynir. Það er það sem skildi hana og Mallory Martin að í gærkvöldi. Sú sem hafði stærra hjartað vann. Ég var allan tímann sannfærður um að Sunna myndi taka þetta, en ég væri að ljúga ef ég segðist hafa verið pollrólegur allan tíman. Ég held ég hafi satt að segja aldrei verið jafn æstur á hliðarlínunni eins og í þessum bardaga, enda er ég þegjandi hás í dag.”

Enn ósigruð

Jón Viðar bendir á að ef litið er á staðreyndir málsins þá sé hún enn ósigruð á sínum atvinnuferli og að það beri að taka það fram að hann hófst hjá einu af stærstu bardagasamböndum veraldar, en ekki hjá litlu sambandi þar sem líkur eru á að andstæðingarnir séu ekki jafn öflugir. Vanalega þá vinnur atvinnubardagafólk sig upp í gegnum minni samböndin og kemur sér í sviðsljósið með þeim hætti og kveikir þar með áhuga stærri sambandanna. Það var því óvenjuleg ákvörðun hjá Invicta FC að bjóða henni samning án þess að hún hafi barist einn einasta atvinnubardaga. Líklega sér þó enginn eftir þeirri ákvörðun í dag. Að vera 2-0 hjá Invicta segir öllum bardagaheiminum að það ber að taka Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur alvarlega.“Sunna sýndi öllum að hún er komin til að vera með sinni frammistöðu í þessum bardaga. Hvernig hún vann sig út úr mótlætinu, hvernig hún nýtti sér yfirburðastöðurnar og svo bara hvað hún leit vel út þarna. Það efast enginn um Sunnu núna og ég vona bara að hún fái annan bardaga sem fyrst því hún er á svo góðu róli. Hún er alveg heim eftir bardagann og gæti áreiðanlega tekið annan á morgun ef þess þyrfti.”,segir Jón Viðar og bætir við; “Sunna getur farið alla leið, fyrst í titlbardagaga hjá Invicta og svo getur hún hrist vel upp í strávigtinni hjá UFC ef þær dyr opnast. Við erum ofboðslega stolt af Sunnu og hlökkum til að fylgja henni áfram í þau stríð sem framundan eru.”