*

Bílar 9. júlí 2016

Subaru í 40 ár á Fróni

Á þessu ári eru liðin 40 ár síðan umboð fyrir japönsku bílana Subaru tók til starfa hér á landi.

Fyrsti Subaru-inn frá Fuji Industries í Japan leit dagsins ljós 1958. Sá var framdrifinn en tímamót urðu þegar fyrirtækið setti þann fyrsta með fjórhjóladrifi á markað í heimalandinu árið 1972. Í kjölfarið hófst útflutningur til helstu markaða heims, enda var fjórhjóladrifið mikil framför. Fólksbílaeigendur gátu nú skyndilega komist leiðar sinnar í öllum veðrum.

Fjórhjóladrif og boxervélar

Á Íslandi fóru ökumenn ekki varhluta af byltingunni sem Subaru færði bíleigendum sumarið 1976. Þetta átti ekki síst við um íbúa landsbyggðarinnar þar sem Subaru hefur alla tíð átt trygga aðdáendur vegna aksturseiginleika sinna jafnt sumar sem vetur. Það þótti enda saga til næsta bæjar þegar Ólafur Jónsson, skólastjóri í Keflavík, fór af rælni suður Kjöl frá Varmahlíð í Skagafirði á Subaru 12. júní 1977. Þá taldi Vegagerðin Kjöl enn alveg ófæran öðrum bílum en hefðbundnum jeppum, en Ólafur sagði að ferðalagið vitnaði „um ágæti Subaru torfærubílsins“.

Frá 1976 hafa landsmenn keypt yfir 21 þúsund Subarubíla. Vel á tólfta þúsund eru í umferðinni í dag, þar á meðal margir af elstu bílunum sem fluttir voru til landsins. Fjórhjóladrif og boxervélar hafa frá upphafi verið megineinkenni Subaru ásamt miklum áreiðanleika sem einkennt hefur starf framleiðandans frá upphafi.

Stikkorð: Subaru  • bílar