*

Matur og vín 26. nóvember 2012

Súkkulaði sem ekki bráðnar við líkamshita

Hitaþolið súkkulaði frá Cadburys er ætlað sælgætisunnendum í heitari löndum.

Breski sælgætisframleiðandinn Cadburys hefur fundið upp súkkulaði, sem ekki bráðnar við líkamshita. Þolir súkkulaðið að vera við 40 gráðu hita í þrjá tíma áður en það tekur að bráðna, að því er segir í frétt á vefsíðu breska blaðsins Daily Mirror.

Súkkulaðið er hugsað sérstaklega fyrir súkkulaðiunnendur í heitari löndum, eins og Indlandi og Brasilíu og verður ekki til sölu á vesturlöndum.

Ekki er um það að ræða að aðskotaefni sé bætt við súkkulaðið, heldur er galdurinn fólginn í nýrri aðferð við að blanda saman kakósmjöri, olíu, mjólk og sykri. Sykurinn er brotinn niður í smærri einingar og þar af leiðandi er minni fita utan á hverri einingu. Þetta eykur bráðnunarþol súkkulaðsins.

Stikkorð: Súkkulaði