*

Menning & listir 23. júní 2014

SÚM naut vinsælda í Basel

i8 gallerí tók þátt í Art Basel um helgina, einni stærstu listamessu heims. Til sýnis voru verk eftir þrjá meðlimi SÚM listahópsins.

Kári Finnsson

Íslenska galleríið i8 sýndi um helgina verk eftir þrjá íslenska listamenn á Art Basel listamessunni í Basel í Sviss sem hófst fimmtudaginn síðastliðinn og lauk í gær. Listamessan, sem haldin hefur verið frá því á áttunda áratugnum, einblínir á samtímamyndlist og er ein sú stærsta í heiminum. Hvert ár sækja yfir 65.000 manns Art Basel heim en á síðasta ári tóku í kringum 300 gallerí þátt en yfir þúsund gallerí sóttu um að taka þátt í messunni. Á meðal þeirra sem sækja messuna eru umsvifamestu listaverkasafnarar heims. 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem i8 tekur þátt í Art Basel listamessunni en þetta árið sýndi galleríið verk eftir Sigurð Guðmundsson, Hrein Friðfinnsson og Kristján Guðmundsson sem allir eiga það sameiginlegt að hafa verið hluti af listhópnum SÚM. Að sögn Barkar Arnarsonar, eiganda i8 gallerís, gekk þeim vel á messunni og tók hann eftir miklum áhuga fyrir verkum Sigurðar, Hreins og Kristjáns.

Listaverk vinsæll fjárfestingakostur

Meðal þess sem hæst bar á góma á messunni var að verk eftir Andy Warhol seldist fyrir 32 milljónir bandaríkjadollara á fyrstu 15 mínútum eftir að messan opnaði. Þó nokkur önnur verk voru seld yfir milljón dollara markið en þar má nefna David Hockney verk sem seldist fyrir 4 milljónir dollara og málverk eftir Fernand Leger sem seldist fyrir 3 milljónir bandaríkjadollara. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um listamessuna en í henni er gefið í skyn að listaverk séu að vaxa í vinsældum sem fjárfestingakostur fyrir mjög efnaða einstaklinga. 

Stikkorð: i8 gallerí  • Art Basel