*

Menning & listir 26. febrúar 2016

Súrrealískt að vera tilnefndur

Baltasar Breki Samper er tilnefndur til Edduverðlauna fyrir besta leik í aukahlutverki.

Eydís Eyland

Baltasar Breki lék hinn dularfulla Hjört í þáttunum Ófærð og er óhætt að segja að þessi ungi leikari hafi strax náð að fanga athygli áhorfenda. Hann virðist auk þess vera á hraðleið upp á stjörnuhimininn ef marka má almannaróm. Eftir vinnu mælti sér mót við Baltasar Breka á dögunum til þess að kynnast þessari upprennandi stjörnu.

Nú ert þú tilnefndur til Eddunnar sem besti leikari í aukahlutverki. Hver eru þín viðbrögð við tilnefningunni?

„Ég er að sjálfsögðu bara mjög upp með mér og finnst þetta þvílíkur heiður,“ segir Breki. „Sérstaklega þegar ég lít á hópinn af leikurum sem ég er tilnefndur með, allir reynsluboltar í faginu og frábærir leikarar. Akkúrat núna finnst mér þetta dálítið súrrealískt. Ég er svo nýskriðinn út úr Listaháskólanum og var meira að segja í skólanum þegar við tókum þættina upp. Það er reyndar önnur stelpa úr skólanum líka tilnefnd sem besta leikkona í aukahlutverki, hún Birna Rún, en hún er að útskrifast í vor. Svo er Atli Óskar tilnefndur fyrir aðalhlutverk og hann er líka í skóla. Mér finnst frábært að ungir leikarar séu að koma sterkt inn núna og marka sín spor í bransanum. Kynslóðin okkar hefur alist upp fyrir framan skjáinn og er mjög næm fyrir kvikmyndaleik.“

Nánar er rætt við Baltasar Breka í Eftir vinnu sem fylgdi Viðskiptablaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag.