*

Bílar 10. mars 2015

Svakalegur Koenigsegg í Genf

Bílinn er alls 1800 hestöfl og kemst upp í 100 km hraða á aðeins 2,7 sekúndum.

Sænski lúxusbílaframleiðandinn Koenigsegg fær oft mikla athygli á bílasýningum. Svo er einnig nú í Genf og ekki að ástæðulausu. Þar er Koenigsegg Regera sportbíllinn að gera allt vitlaust. Þessi ofursportbíll er með fjórum mótorum, þremur rafmóturum sem skila alls 700 hestöflum samanlagt og fimm lítra V8 bensínvél sem með tveimur fjorþjöppum sem bætir hvorki minna né meira en 1.100 hestöflum við. Alls er þessi hrikalegi sportbíll því 1.800 hestöfl. Geri aðrir betur!

Þessi ógnarkraftur skilar bílnum úr kyrrstöðu í 100 km hraða á aðeins 2,7 sekúndum og í 400 km hraða á aðeins 20 sekúndum. Bíllinn er flottur og framúrstefnulegur í útliti. Hann minnir helst á bíl frá Gotham City í Batman mynd. Dyrnar opnast 90 gráður upp og hægt er að stýra opnunni úr snjallsíma ökumanns. Aðeins 80 Regara sportbílar verða framleiddir. Verðið er í kringum 260 milljónir króna þannig að líklegra er að Koenigsegg Regera sjáist á vegum Sádi Arabíu en hér á klakanum!