*

Veiði 12. nóvember 2013

SVFR hættir með Laxá í Dölum

Stangaveiðifélag Reykjavíkur dregur enn saman seglin.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) og Veiðifélag Laxdæla hafa komist að samkomulagi um að ljúka samstarfi félaganna um leigu á veiðirétti í Laxá í Dölum. Þar með er ljóst að Stangaveiðifélagið dregur enn saman seglin því áður hafði félagið misst, eða gefið frá sér, veiðirétt í Norðurá og á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal.

„Veiðin í Laxá í Dölum hefur ekki  staðið undir væntingum undanfarin þrjú ár og eftirspurn félagsmanna eftir veiðileyfum þar farið minnkandi,“ segir á vef SVFR. „Í ljósi minnkandi veiði var SVFR með til skoðunar breytt veiðifyrirkomulag á svæðinu, fluguveiði eingöngu og veiða og sleppa með það að markmiði að byggja ána upp á ný. En eftir ítarlega skoðun komst stjórn SVFR að þeirri niðurstöðu að ekki sé verjandi að vera með  mikla fjárhagslega skuldbindingu á félaginu vegna Laxár í Dölum við þær aðstæður þegar byggja þarf ársvæði upp á ný.“

Stikkorð: Laxá í Dölum