*

Bílar 25. október 2017

Svíarnir með öryggið á oddinum

Nýr Volvo XC60 var frumsýndur hér á landi á dögunum

Óhætt er að segja að nýja sportjeppans hafi verið beðið með eftirvæntingu. Hann leysir af hólmi vinsælan forvera sem var með vinsælustu bílum sænska bílaframleiðandans í seinni tíð og hefur staðið undir um 30% af sölu Volvo á heimsvísu.

Nýr Volvo XC60 er enn flottari og betri en eldri gerðin og maður getur gert sér í hugarlund að hann muni ekki slá af hvað vinsældirnar varðar. Sportjeppinn líkist mjög stóra bróðurnum XC90 sem kom á markað í fyrra og vann hug og hjörtu margra fyrir fallega hönnun. Þessi minni sportjeppi er ekki síður fallegur en sá stærri og hentar líklega fjölmennari hópi því hann er þægilega stór fyrir flestar fjölskyldur. Fimm manns rúmast vel í bílnum og það er fínt pláss í farangursrýminu. Aðgengið er mjög gott og það er þægilegt að setjast inn í bílinn.

Með línurnar í lagi

Nýr XC60 er fagurlega hannaður að innan sem utan. Línurnar eru í lagi á þessum bíl. Innanrýmið er fallegt og fágað. Stór 12,3 tommu TFT skjár er i mælaborðinu sem sér um alla afþreyingu og upplýsingakerfi. Það er vandað mjög til verka og allur frágangur til fyrirmyndar. Reynsluakstursbíllinn er með R Design útliti sem gerir hann enn flottari. Þá er hann með stærri felgum, Nappa leðursportsætum og fleira góðgæti. Ekki það að staðalbúnaðurinn er mikill og flottur í bílnum en þetta fer alltaf eftir smekk og hversu miklu hver og einn er tilbúinn að eyða miklu aukalega til að bæta við búnaði í bílinn.

Mjög fínn kraftur

Sportjeppinn var prófaður með 2 lítra dísilvél með for- þjöppu sem skilar 235 hestöflum og 480 Nm í togi. Þetta er aflmikill bíll og hörkuskemmtilegur í akstri. Fjöðrunin er góð og það er þægilegt að aka bílnum. Hann er mjög þéttur og lítið sem ekkert vélarhljóð eða veghljóð berst inn í hann. Átta gíra sjálfskiptingin er mjúk og þægileg. Sportjeppinn eyðir frá 5,5 lítrum á hundraðið miðað við tölur frá framleiðanda og CO2 losunin er 144 g/km. Bíllinn er með fjórhjóladrifi þannig að hann hentar sérlega vel við íslenskar aðstæður og ekki síst að vetri til þegar snjór og hálka gera vart við sig.

Búnir bensínvél

Hægt er að fá XC60 með minni 190 hestafla dísilvél og þá er einnig í boði T8 útfæslan sem er með Plug-in Hybrid. Sá er með 2 lítra bensínvél og rafmótor en tengiltvinnvélin skilar miklu afli eða samtals 407 hestöflum og 640 Nm í togi. Það er bíll sem á væntanlega eftir að verða mjög vinsæll enda hafa Plug-in Hybrid bílar selst mjög vel á þessu ári. Það er svo sem ekkert skrítið því tengiltvinnbílar eru eyðsluminni og umhverfismildari. Og kosturinn er að þeir eru búnir bensínvél ef rafhlaðan eyðist og hægt að keyra á bensíninu þar til mögulegt er að hlaða bílinn að nýju.

Svíarnir með öryggið á oddinum

Sportjeppinn er búinn nýjustu þægindum og öryggisbúnaði. Svíarnir eru ekkert að slá af öryggiinu frekar en fyrri daginn. Stýrisaðstoð hefur verið bætt við City Safety öryggiskerfið. Þannig notar öryggiskerfið stýrisaðstoð- ina til að koma í veg fyrir árekstur við bíla sem koma úr gagnstæðri átt. Blindsvæðisskynjarinn notar nú stýrisað- stoðina til að draga úr hættu á árekstri þegar skipt er um akrein. Nýr XC60 kostar frá 6.790.000 kr. Bíllinn sem prófað- ur er hér kostar 7.590.000 kr. Í T8 Plug-in Hybrid kostar hann frá 7.490.000 kr.