*

Matur og vín 19. mars 2017

Svolítið það sem lífið snýst um

Salt Eldhús býður viðskiptavinum sínum skemmtilegar, matartengdar upplifanir með gagnvirkri kennslu, fræðslu og kynningum. Í boði er fjölbreytt úrval matreiðslu námskeiða, fyrsta flokks aðstaða og frábærir kennarar.

Kolbrún P. Helgadóttir

Salt eldhús er með um þrjátíu mismunandi námskeið í boði fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki, jafnt erlend sem innlend. Sigríður Björk Bragadóttir, matreiðslumaður og annar eigandi Salt eldhúss segir að vera afslappandi að elda saman í hóp, múrar brotni, tengslin styrkjast og það verði til jákvæð upplifun.

 „Innlend og erlend fyrirtæki nýta sér þetta fyrir hvataferðir, hópefli og til að styrkja tengslin við sína viðskiptavini. Gott dæmi um þetta er hópur erlendra stjórnenda frá mismunandi deildum, sem kom til Íslands til að vinna saman að ákveðnu verkefni. Hópurinn þekktist lítið innbyrðis. Þau hófu sína vinnu á því að koma á námskeið hjá okkur þar sem þau kynntust og brutu ísinn í því jákvæða umhverfi sem við bjóðum upp á. Í matargerð lærist að góð samvinna er lykillinn að árangri. Verðlaunin eru auðvitað frábær máltíð, sem hópurinn hefur sjálfur búið til, í skemmtilegu og fallegu umhverfi.

Við erum líka með námskeið daglega fyrir erlenda ferðamenn. Við köllum það „Cook and Dine“ sem gæti útlagst „Eldað og Snætt“ á okkar ástkæra ylhýra. Þarna er áherslan á að kynna og elda úr fersku, íslensku hráefni. Fiskur og lamb leika stórt hlutverk en líka skyr, rabbarbari, bláber, heimabakað rúgbrauð o.fl. Á þessum námskeiðum skapast jafnan miklar umræður um Ísland almennt, menningu, hefðir og sögu, ekki bara matartengt. Þetta námskeið hefur reynst ótrúlega skemmtilegt og gefandi.“

 Makrónur, súrdeig og tertur

Hún segir nokkur námskeið sem hafi verið og séu mjög vinsæl að undanförnu. „Af námskeiðum sem tengjast bakstri þá eru það Franskar makrónur, súrdeigsbakstur og franskar tartes. Af matreiðslunámskeiðum þá eru námskeið á borð við Indverska matargerð, Indverskir grænmetisréttir, Tælensk matargerð og Marokkósk matargerð mjög vinsæl og hin sívinsælu og klassísku námskeið Hin fullkomna steik og Sous-vide eldamennska.“

Hún segir að ákveðið hafi verið að  ástunda virka vöruþróun og fylgjast vel með straumum og stefnum. „Á þessu misseri eru 7 ný námskeið í boði þannig að við erum að reyna að standa við þetta. Nýju námskeiðin eru: „Eldhús Grænkerans“, eftir samnefndri bók Hönnu Hlífar, sem kom út á seinasta ári, en Hanna kennir sjálf þetta spennandi námskeið;„Éclairs, franskar og fágaðar“, þar sem ég fer í saumanna á þessu ómótstæðilega franska bakkelsi og mismunandi fyllingum, kremum og skreytimöguleikum; „Ósætar tartes“, sem er framhald af hinu vinsæla námskeiði „Franskar tartes með Sylwiu“ nema að þessu sinni beinir Sylwia frá Tartes Factory athyglinni að matarbökum á borð við quiche Lorraine og fleiri klassískum bökum; „Ræktun kryddjurta“, en þar mun Auður Rafnsdóttir höfundur bókarinnar Kryddjurtaræktun fyrir byrjendur, leiðbeina fólki hvernig koma megi upp sínum eigin kryddjurtum við ólíkar aðstæður, en því má bæta við að þetta námskeið er dagnámskeið á laugardegi sem ætti að gera fleirum en ella kleyft að koma; „Veisla úr íslensku hráefni“, er námskeið þar sem við eldum glæsilega 3ja rétta veislumáltíð úr okkar frábæra hráefni á borð við fisk, lamb, skyr og fleira, lærum skotheldar eldunaraðferðir í leiðinni og spreytum okkur á að setja réttina upp á disk (e. plating);„Kökubakstur frá A-Ö“, er svona tækni og aðferða námskeið (e. skills) námskeið þar sem ég fer skipulega í gegnum helstu gerðir af deigi og aðferðir þeim tengdum sem kökubakstur byggir á, en jafnframt gerum við nokkur krem til að fullvinna afurðir námskeiðsins; að lokum er svo námskeiðið „Franskur vetrarmatur“, en þar eldum við nokkra ólíka franska rétti frá mismunandi héruðum í notalegri franskri stemningu með tilheyrandi tónlist að sjálfsögðu.“

Hún segir að hjá Salt eldhúsi sníði þau til, bæta og breyta námskeiðum til að mæta þörfum og óskum hópa. „Stundum verða til ný námskeið og svo eigum við ýmis námskeið á lager hjá okkur, sem ekki eru sýnileg á vefsíðunni okkar. Við leggjum alltaf áherslu á að námskeiðið sé gott, að það hæfi tilgangi og markmiði, að það sé til reiðu góður kennari og að við höfum trú á að viðskiptavinurinn muni verða ánægður.Okkur er annt um orðspor okkar og viljum gjarnan fá viðskiptavininn aftur til okkar. Við viljum því að vanda til verka.“

Hjá Salt Eldhúsi starfar glæsilegur hópur matreiðslumanna og matgæðinga frá ýmsum löndum sem annast kennslu á námskeiðunum. „Ég kenni allmörg námskeið sjálf og er síðan á staðnum til aðstoðar á öllum öðrum námskeiðum.“

Franska klassíkin

Klassísk frönsk matargerð er í uppáhaldi hjá Sigríði. „Ég var svo heppin að fá tækifæri til að búa í París í 2 ár, nýbúin að klára nám í Hótel og Veitingaskólanum og gerði það svolítið útslagið. Annars er ég svolítil dellukerling, finnst gaman að sökkva mér í tiltekið hráefni eða aðferð og tek góðan tíma í það. Eftir 10 ára starf á Gestgjafanum er það svolítið það sem lífið snýst um, að kynna sér strauma og stefnur í matargerð og fylgjast með nýjungum. Kemur sér vel hér á þessum vettvangi sem kennslan er. Nú er ég með rabarbara á heilanum, kem sterk inn þegar uppskerutíminn kemur.“

Hún er  alin upp við góðan mat og mikin mataráhuga. „Mamma var mjög góður kokkur og listabakari, ömmur mínar elduðu báðar ótrúlega góðan mat, ólíkan þó, önnur eldaði rammíslenskan mat en hin  heimsótti Danmörku reglulega og sótti innblástur þangað. Afi minn var sælkeri og sá um konfektgerð og smákökubakstur á æskuheimili mömmu minnar fyrir jólin, hann var í þessu fína bakkelsi, amma kom ekki nálægt því.  Ég var mjög ung þegar það varð ljóst að mín ástríða var að fá að starfa við mat og ég fór því í Hótel og Veitingaskólann rétt eftir tvítugt, þetta var aldrei spurning.“

Stikkorð: matur  • Salt eldhús