*

Tíska og hönnun 30. september 2013

Svört íbúð í New York

Í Chelsea hverfinu á Manhattan er íbúð til sölu þar sem hver einasti veggur, loft og gólf er svart.

Cindy Gallop, fyrrum auglýsingastjóri í New York, hefur sett íbúð sína í Chelsea hverfinu á Manhattan á sölu.

Íbúðin þykir mjög kúl, einkum vegna þess að hver einasti veggur íbúðarinnar er málaður svartur.

Eignin er í gamalli YMCA byggingu og er 353 fermetrar. Í henni eru tvö svefnherbergi, þrjú baðherbergi og stórt rými sem nýtist sem stofa, borðstofa og eldhús. Við hliðina á stóra rýminu er aðalsvefnherbergið og baðherbergið en á þeim eru ekki hurðir.

Cindy keypti húsnæðið nánast fokhelt árið 2005 á 1,5 milljónir dala eða tæpar 182 milljónir króna. Samkvæmt henni var rýmið áður búningsklefi karla í YMCA byggingunni. Hún fékk innblástur að íbúð sinni frá bar í Sjanghæ og fékk Stefan Boubil hönnuð til liðs við sig og saman hönnuðu þau íbúðina. Allir veggir og loft eru lökkuð með svörtu lakki. Í miðri stofunni er baðkar, að sjálfsögðu svart. Og gólfin eru líka svört.

Íbúðin hefur verið notuð í bíómyndum og tónlistarmyndböndum en hún kostar í dag 5,995 milljón dali eða tæpar 726 milljónir  króna. The Wall Street Journal fjallar nánar um íbúðina hér.

 

Stikkorð: New York  • Fasteignir