*

Bílar 29. nóvember 2015

Sýknaður af ákæru fyrir að eiga skriðdreka

Gísli Guðmundsson fyrrverandi forstjóri Bifreiða og landbúnaðarvéla á forláta skriðdreka í safni sínu.

Gísli Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Bifreiða og landbúnaðarvéla, hefur haft mikinn bílaáhuga síðan í barnæsku. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í bílabransanum frá því að innflutningur bíla frá Sovétríkjunum sálugu hófst á 6. áratugnum en segja má að viðskiptasaga Bifreiða og landbúnaðarvéla og samskipti fyrirtækisins við Ráðstjórnarríkin hafi yfir sér ævintýralegan blæ.

Í viðtali í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, rifjar Gísli upp sögur frá eftirminnilegstu bílinum sem hann hefur ekið í gegnum tíðina. Gísli á ekki bara fólksbíla og jeppa því hann á einnig í safni sínu forláta skriðdreka. ,,Þetta er bandarískur skriðdreki sem er frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og ég geymi hann á góðum stað fyrir austan. Ég var kærður fyrir brot á vopnalögum fyrir að eiga þennan skriðdreka. Ákæruvaldið taldi að þarna væri um stórhættulegt stríðstól að ræða. En ég var sýknaður í héraðsdómi og efaðist nú aldrei um að þetta mál mál félli öðruvísi en með sýknu. Hlaupið sem er framan á skriðdrekanum er skaðlaust með öllu enda bara vatnsrör. Maður hefði haldið að ákæruvaldið hefði eitthvað þarfara að gera en að eltast við mig út af þessu leikfangi,“ segir hann.

Nánar er rætt við Gísla í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð