*

Sport & peningar 30. ágúst 2017

Tæki 200 ár að vinna sér inn laun Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson er með um 200 sinnum hærri laun en Íslendingur með 500 þúsund krónur í laun fyrir skatt.

Það tæki Íslending með 500 þúsund krónur í mánaðarlaun fyrir skatt um 200 ár að vinna sér inn árslaun Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton samkvæmt reiknivél á vefsíðu BBC Sport. Í reiknivélinni getur hin venjulegi launamaður borið laun sín saman við launahæstu knattspyrnumenn heims.

Samkvæmt heimildum BBC er Gylfi með um 6,2 milljónir punda í árslaun sem gerir um 516 þúsund pund á mánuði og um 120 þúsund pund á viku. Þar sem oftast er talið um laun knattspyrnu manna í vikum samsvara laun Gylfa því um 16,3 milljónum króna á viku. 

Reiknivélin sýnir einnig að það taki Gylfa um 51 mínútu að vinna sér inn vikulaun einstaklings með 500 þúsund í mánaðarlaun. Þá kemur einnig fram að laun Gylfa samsvara því sölutekjum af 90.500 Everton treyjum með nafni Gylfa á bakinu. 

Reiknivélin byggir á gögnum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni þar sem meðallaun í hverju landi koma fram. Samkvæmt gögnunum eru meðal árslaun á Íslandi 5.061.300 krónur en gera má ráð fyrir að í dag séu þau öllu hærri vegna launahækkana á undanförnum misserum. Til að bera saman laun milli landa er notast við gögn frá Alþjóðabankanum um kaupmáttarjafnvægi (e. purchasing power parity).