*

Tölvur & tækni 20. desember 2013

Tækjaprófun: Flottur iPhone 5S á bærilegra verði

Viðskiptablaðið er nokkuð sátt við nýjasta iPhone-símann.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Nú þegar símafyrirtækin hafa náð samningum við bandaríska tæknifyrirtækið Apple og verðið á iPhone 5S-símum og lækkað verðið á þeim verulega er ekki seinna vænna en að fjalla um græjuna. Símarnir komu á markað í haust. Þegar Viðskiptablaðið prófaði símann í október kostaði hann allt að 190 þúsund krónum, sem flokkast með fokdýrum tækjum. Nú er verðið öllu bærilegra, rétt yfir hundrað þúsund kallinum hjá flestum þeim sem selja símann.

En að símanum sjálfum. Í sjálfu sér kemur iPhone 5S ekki þeim neitt verulega á óvart sem á annað borð hafa notað síma frá Apple. Örgjörvinn er hraðari (1.3 GHz tvíkjarna-örgjörvi), myndavélin öflugri (8 MP), stuðningur er við 4G-gagnaflutningstækni og er hann jafn stór (eða lítill) og forverinn iPhone 5. Það sem helst greinir nýja símann frá þeim fyrri er uppfærslan á stýrikerfinu og aðalhnappurinn neðst á símanum. Í stað nokkuð stöðugs og lítils hnapps er nú kominn fingrafaralesari sem virkar eins og geti brotnað við minnsta þrýsting. Það gerir hann að sjálfsögðu ekki. 

Þegar nýja stýrikerfið, IOS 7 kom út á sama tíma og síminn, kvörtuðu margir hástöfum. Það var óþarfi og má neikvæð viðbrögð fremur skrifast á hræðslu við breytingar en slæmt stýrikerfi. Lítið er athugavert við stýrikerfið og venst það nokkuð fljótt. 

Góðar myndir í björtu

Ég notaði símann daglega um skeið og líkaði vel. Þrátt fyrir smæðina vandist síminn og fór orðið vel í hendi. Dagleg notkun var ekkert umfram það sem venjulega gerist; ég hringi mikið, sendi smáskilaboð, tek myndir og rápa um netið auk nokkurra forrita, þar á meðal Facebook, Instragram og tengdra appa sem ekki eru í flóknari kantinum. Eins og áður hefur komið fram á VB.is í símaprófunum mínum þá legg ég mikið upp úr gæðum myndavéla í farsímum.

Eins og sjá má á myndunum hér að neðan þá var ég staddur norður á Hofsósi þegar ég prófaði símann. Eins og sést á myndunum af sundlauginni bera myndirnar með sér að þær sem teknar voru í björtu tókust mjög vel. Eins og flestir símar réð iPhone 5S ekki vel við aðstæðurnar þegar tekið var að skyggja. Þær myndir sem teknar voru í myrkri voru grófari en hinar. Aftur á móti fangaði linsan vel litabrigðin þegar sól var að hníga til viðar. 

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: iPhone  • iPhone 5  • iPhone 5S