*

Tölvur & tækni 23. júlí 2013

Tækni til að þekkja fræga búðargesti

Andlitsgreining er nú notuð til að vara kaupmenn við þegar frægt fólk kemur í verslunina.

Það er ekkert leyndarmál að í ákveðnum tegundum verslana, einkum í borgum eins og London, New York og Los Angeles, fær fína og fræga fólkið betri þjónustu en almúginn. Vandamál geta þó komið upp þegar starfsfólkið þekkir ekki viðkomandi manneskju og bregst ekki við með „réttum“ hætti.

Bandaríska sjónvarpsleikkonan og handritshöfundurinn Mindy Kaling, sem lék í og skrifaði fyrir bandarísku Office þættina, lenti í þessu á dögunum þegar hún gekk inn í skartgripaverslunina Tarina Tarantino þar sem enginn þekkti hana og greindi frá þessari reynslu sinni í fjölmiðlum, en slíka umfjöllun vilja verslanirnar forðast. Bandaríska útvarpsstöðin NPR greinir frá.

Fyrirtækið NEC IT Solutions segist þó vera búið að þróa andlitsgreiningartækni sem leysa á þetta vandamál. Tæknin, sem er svipuð þeirri sem notuð er til að leita uppi hryðjuverka- og glæpamenn, nýtir eftirlitsmyndavélar í viðkomandi verslun og ber saman andlit búðargesta við lista af frægu fólki og mikilvægum viðskiptavinum. Starfsfólk fær þá viðvörun í snjallsíma eða spjaldtölvu ásamt upplýsingum um fatastærð gestarins.

Nú þegar er verið að prófa tæknina í nokkrum verslunum í Bandaríkjunum, en höfundarnir halda því fram að hún virki jafnvel þegar búðargesturinn reynir að hylja andlit sitt með stórum sólgleraugum eða treflum.

Stikkorð: Verslun  • Mindy Kaling