*

Tölvur & tækni 24. október 2012

Tæknitröllin ekki hrifin af iPad mini

Apple kynnti nýja og minni spjaldtölvu til sögunnar í gær. Sérfræðingar segja hana ekki koma vel út í samanburði við keppinautana.

Tæknispekúlantar eru ekkert yfir sig hrifnir af iPad Mini, spjaldtölvunni sem bandaríski tæknirisinn Apple kynnti til sögunnar í gær og setur á markað eftir næstu mánaðamót. 

Í morgun fjallaði VB um verðmiðann á spjaldtölvunni, sem þykir í hærri kantinum. Netmiðillinn Gizmodo bendir m.a. á að spjaldtölvan komi ekkert sérstaklega vel út í samanburði við tölvur af sambærilegris stærð, s.s. Kindle Fire frá Amazon og Nexus 7-spjaldtölvuna frá Google. Hún er t.a.m. 130 dölum dýrari en nýjasta gerðin af Kindle Fire. Ef litið er á hlutfallið er iPad Mini 65% dýrari en Kindle Fire en 32% dýrari en Nexus 7 út úr búð í Bandaríkjunum. Þetta segir Gizmodo ekki skref í rétta átt hjá Apple.

Í umfjöllun Gizmodo er m.a. bent á að iPad Mini er stærri um sig en hinar tölvurnar tvær. Þá er tölvan ekki með Retina-háskerpuskjá eins og stóri bróðirinn iPad og með um 25% minni skjáupplausn en tölvurnar frá Amazon og Google. 

Stikkorð: iPad  • Apple  • iPad mini