*

Bílar 2. apríl 2017

Tæknivæddur Kodiaq

Einu sinni þótti frekar hallærislegt að aka um á Skoda. Sá tími er löngu liðinn. Í dag eru Skoda-bílarnir góð smíði og hönnunin flott.

Róbert Róbertsson

Mjög vel hefur tekist til við hönnun Kodiaq og það er ekki að sjá að hér sé frumraun bílaframleiðandans í þessum flokki bíla. Skoda hefur verið í mikilli sókn síðan um aldamótin og komið fram með vandaða bíla eins og Octavia og Superb. Það eru augljós ættareinkenni með Kodiaq sem er er stór og stæðilegur sportjeppi. Línurnar eru kraftalegar og maður fær strax á tilfinninguna að hér sé mjög gott pláss fyrir fólk og farangur sem raunin er því Kodiaq hefur stærsta farangursrými bíla í sínum flokki. Það fer vel um ökumann og farþega í bílnum og meira að segja er hægt að bæta þriðju sætaröðinni við. 

Spræk dísilvél

Ég fékk afhenta lyklana að dýrustu týpunni af Kodiaq með 2 lítra lítra dísilvél sem skilar 190 hestöflum. Þetta er spræk vél í alla staði. Bíllinn er búinn fjórhjóladrifi og sjálfskiptingu. Eyðslan er frá 5,7 lítrum á hundraðið miðað við tölur frá framleiðanda og mengunin er frá 150 g/km.

Þar sem þetta er dýrasta útfærslan er hún eðlilega mjög vel búin í alla staði, með leðursætum, lyklalausu aðgengi, þriggja svæða miðstöð, LED innilýsingu og hita í stýri þótt þess síðastnefnda hafi nú ekki gefist þörf á að nota í yndislegu veðrinu á Mallorca. En kemur án efa að mjög góðum notum í vetrarkuldanum heima á Fróni. Og það má með sanni segja að þessi bíll passi vel við íslenskar aðstæður eins og sannur sportjeppi. 

Öll tækni til staðar

Innanrýmið er vandað í þessari útfærslu bílsins og hönnunin í innanrýminu prýðisgóð. Maður fær það á tilfinninguna að hér sé um talsvert dýrari bíl að ræða en raunin er. Það sem sker sig þó úr er hversu tæknivæddur bíllinn er. Í bílnum er að finna Columbus sem er með 64 GB gagnapláss, DVD og LTE sem er valbúnaður fyrir háhraða nettengingu. Öll stýring fer í gegnum snertiskjá fremst fyrir miðju.

Hægt er að tengja öll helstu upplýsinga- og afþreyingarkerfi beint í snjallsíma farþega í gegnum Bluetooth eða SmartLink. Bíllinn býður upp á WI FI heitan reit sem er ekki amalegt á þessum tímum snjallsíma og auðveldar farþegum að leika sér við ýmislegt í símanum meðan á ferð stendur.  

Nánar er fjallað um málið í bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Skoda  • Kodiaq