*

Bílar 30. júní 2012

Tæknivæddur og smart tvinnbíll

Toyota Yaris í Hybrid-útgáfu var kynntur fyrir bílablaðamönnum í Amsterdam á dögunum.

Róbert Róbertsson

Yaris er fyrsti bíllinn í sínum stærðarflokki sem búinn er Hybrid-tækninni. Bíllinn var frumsýndur á bílasýningunni í Genf fyrr á árinu og tilheyrir þriðju kynslóð Yaris sem kom fram á sjónarsviðið í fyrrahaust. 

Yaris er einn mest seldi bíllinn á Íslandi undanfarin ár. Samkvæmt upplýsingum frá Toyota á Íslandi hafa þegar borist allmargar pantanir í þessa nýju útgáfu af Yaris áður en hann hefur verið frumsýndur. Það er því greinilega mikill áhugi á bílnum í Hybrid-útgáfunni. 

Tvinnbílar eru venjulegir bensínbílar en þeir breyta orku, sem annars fer til spillis þegar bíllinn bremsar, í rafmagn sem notað er ásamt bensínvélinni til að knýja bílinn áfram. Tvinnbílar eru því sparneytnari en sambærilegir bensínbílar og menga minna. 

Yaris Hybrid er sem sagt með 1,5 lítra bensínvél og rafmagnsmótor sem skilar 100 hestöflum. Meðaleyðslan er aðeins 3,5 lítrar á hundraðið miðað við blandaðan akstur samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Koltvísýringslosunin er einungis 79 g/km sem þýðir að bíllinn telst til umhverfismildasta flokks bíla og fær frítt í stæði í borginni. Bíllinn er ágætur í aksturseiginleikum miðað við smábíl. 

Nánar er fjallað um Yaris Hybrid í bílaumfjöllun í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Toyota Yaris  • Yaris Hybrid