
Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur varið tæpum 9,7 milljónum Sterlingspunda í þóknanir fyrir umboðsmenn á síðastliðnu ári, mest allra félaga í ensku úrvalsdeildinni.
Næst á eftir kemur Tottenham, sem varið hefur tæpum 7,6 milljónum punda á leiktíðinni. Þá hefur Liverpool varið 7 milljónum punda samkvæmt frétt BBC. Núverandi meistarar, Manchester United, hafa varið tæpum 4,5 milljónum punda í þóknanir til umboðsmanna.
Alls hafa ensku félögin varið um 71,9 milljónum punda í umboðsmenn á tímabilinu 1. okt. 2010 til 30. sept. 2011.
Þóknanir til umboðsmanna hafa aldrei verið hærri en þær voru fyrst birtar opinberlega árið 2008. Síðustu 12 mánuði á undan vörðu ensku félögin um 67,1 milljón punda þannig að þóknanirnar hafa hækkað um 4,8 milljónir punda á milli ára.
Þau lið sem varið hafa lægstu fjármagni í þóknanir til umboðsmanna eru Swansea, sem varið hafa 248 þúsund pundum, Norwich sem varið hafa 710 þúsund pundum og Wigan sem varið hafa 659 þúsund pundum.
Eitt lið sker sig þó úr þessum lista, en það er Blackpool, sem hefur verið í fjárhagslegri gjörgæslu sl. 2 ár og staðið í stappi við stjórn úrvalsdeildarinnar. Blackpool varði aðeins 45 þúsund pundum í þóknanir til umboðsmanna á fyrrnefndu tímabili.
Hér að neðan má sjá lista yfir þær upphæðir sem 16 lið (af 20) í ensku úrvaldeildinni hafa varið í þóknanir til umboðsmanna á fyrrnefndu tímabili. Listinn er tekinn beint af vef BBC og upphæðirnar eins og gefur að skilja í pundum.
Manchester City er nú í efstasæti deildarinnar, með fimm stiga forskot á Manchester United, en City hefur fjárfest verulega í leikmönnum frá því að arabíski furstinn Sheikh Mansour keypti félagið haustið 2008.