*

Bílar 27. júní 2018

Team Spark afhjúpar kappakstursbíl

Team Spark, kappaksturslið verkfræðinema við Háskóla Íslands, afhjúpar rafknúna kappakstursbílinn TS18 næstkomandi fimmtudag.

Team Spark, kappaksturslið verkfræðinema við Háskóla Íslands, afhjúpar rafknúna kappakstursbílinn TS18 á Háskólatorgi fimmtudaginn 28. júní kl. 17. Liðið heldur utan með bílinn til Spánar í lok ágúst til þess að taka þátt í alþjóðlegri kappaksturs- og hönnunarkeppni stúdenta undir merkjum Formula Student í Barcelona.

Um 40 nemendur úr ýmsum deildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands hafa tekið átt í hönnun bílsins í allan vetur og m.a. fengið vinnuna metna sem hluta af námi sínu við Háskóla Íslands. Team Spark leggur sem fyrr áherslu á hönnun rafknúins og umhverfisvæns bíls.

Lið frá Háskóla Íslands hafa tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema undir hatti Formula Student allt frá árinu 2011 og oftast farið til Bretlands þar sem Formula Student fer fram á hinni fornfrægu Silverstone-braut. Á síðustu árum hafa lið skólans einnig reynt fyrir sér í Formula Student keppnum bæði á Ítalíu og Austurríki og m.a. vakið athygli fyrir hugvitsamlega hönnun á vængjum bílsins. Liðsmenn í Team Spark hafa í ár sett stefnuna á Formula Student Spain sem fer fram í Circuit de Barcelona-Catalunya dagana 21.-24. ágúst. Þar mun liðið etja kappi við um 70 lið verkfræðinema frá háskólum víða að úr Evrópu.

Stikkorð: Bílar  • Team Spark