*

Menning & listir 2. nóvember 2015

Teiknaði ofan í sundlaug

Rán Flygenring teiknari flakkaði um Ísland í sumar með penna og skissubók.

Ásta Andrésdóttir

Nú stendur yfir sölusýning á nýjustu verkum teiknarans Ránar Flygenring í Spark Design Gallery við Klapparstíg. Um er að ræða 200 mynda seríu sem hún vann á ferðalagi um Ísland síðastliðið sumar. 

„Þetta eru eins konar augnablik eða örsögur og er myndefnið yfirleitt fólk og náttúra. Hér er á ferðinni svokölluð heimildateiknun, en þá teiknar maður um leið og maður upplifir stundina. Skissar  augnablikið. Þess vegna er hver mynd stimpluð með dagsetningu. Ég notaði penna, tréliti og teikniblokk þó svo að allajafna teikni ég líka í tölvu. Fyrir verkefni eins og þetta þá er mikilvægt að nota það sem er handhægt og virkar strax. Ég prófaði að mála mynd fyrir seríuna en það gekk svo hægt að augnablikið leið bara hjá,“ segir Rán.

„Segja má að rauði þráðurinn í myndaseríunni sé sund- og baðmenning Íslendinga. Þetta er svo stór þáttur í okkar menningu og svo margt sem fyrir augu ber. Þetta er staðurinn sem fólk á öllum aldri kemur saman á. Og nú hafa erlendu ferðamennirnir bæst við. Svo eru það allar óskrifuðu siðareglurnar. Þetta er þar af leiðandi svo safaríkt viðfangsefni. Sjálf hef ég alltaf farið mikið í sund og notað það til að kynnast nýjum stöðum sem ég sæki heim.“

Rán kveðst fá misjöfn viðbrögð þegar hún mundar pennann og teikniblokkina á almannafæri.  „Oftast  finnst mér fólk bara vera forvitið. Of feimið til að spyrja hvað er í gangi en nógu forvitið til að læðast fram hjá og kíkja yfir öxlina á mér. Svo prófaði ég reyndar að teikna á sundlaugarbakkanum en  það  var ekki nógu  vinsælt. Þá  fékk  ég augngotur. Ég hef líka prófað að teikna ofan í lauginni en það er ekki vænlegt til árangurs.“

 

Rán Flygenring teiknari er í viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.