*

Bílar 21. október 2015

Teitur Jónasson með fimm nýjar Scania rútur

„Það þýðir ekki lengur að vera á gömlum druslum“ segir framkvæmdastjóri TJ.

Á undanförnu einu og hálfu ári hefur Rútufyrirtækið Teitur Jónasson keypt fimm nýjar Scania rútur, þar af tvær leðurklæddar lúxusrútur. Þær eru hlaðnar búnaði sem gefur lúxusupplifun af rútuferðinni.

Teitur Jónasson (TJ) hefur í gegnum áratugina frekar verið þekktur fyrir rútur til hálendisferða en leðurklæddar malbiksrútur. Fyrirtækið var umboðsaðili fyrir Joncheere yfirbyggingarnar sem voru mjög algengar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Þær voru byggðar á vörubílagrindum og hentuðu því vel til hálendisferða og á lélegum vegum hér á Íslandi. Á tíunda áratugnum var framleiðslu hjá Joncheere hætt.

Smíði grindabíla hefst að nýju

Við upphaf aldarinnar eru Joncheere-verksmiðjurnar endurvaktar í Portúgal undir nafninu Mobi People og þá hefst samstarf við Teit Jónasson að nýju um þróun á fjallarútu sem hentar íslenskum aðstæðum.

Í dag á fyrirtækið 18 grindarbíla sem flestir hafa komið úr samstarfinu við Mobi People. þau eiga líka einn Joncheere frá árinu 1978. „Það eiga allir gamlan Joncheere,“ segir Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri TJ. Settar hafa verið nýjar grindur undir húsin og húsin smíðuð upp eftir þörfum, en flest rútufyrirtæki eiga svona bíl. Í dag er ágæt sala í grindarbílum frá Mobi People en þeir eru byggðir á Mercedes Benz Atego grindum enda er nokkur endurnýjunarþörf á grindarbílum þar sem bílarnir sem eru enn í notkun voru allir endursmíðaðir, eins og áður sagði.

Boðið að kaupa sýningarbíl

Varðandi kaupin á Scania-bílnum segir Haraldur þau vera þannig tilkomin að samstarfsaðilar TJ úti hafi líka umboð fyrir Scania. TJ hafi boðist að kaupa sýningarbíl á góðu verði og þegar hann var kominn þá var ekki aftur snúið. Þessi bíll hafi komið mjög vel út og því voru keyptir fleiri bílar.

Scaniurnar eru byggðar af Higer í Kína með evrópskum íhlutum og samkvæmt evrópskum gæðakröfum. Haraldur segir Klett, umboðsaðila Scania, hafa staðið sig vel í að þjónusta þessa bíla, sem er algjört skilyrði því Kína er ansi langt í burtu en Klettur fær varahluti með mjög stuttum fyrirvara frá Evrópu.

Í dag eru komnar fimm Scaniur 4, 49-52 manna eftir því hvort þær eru með salerni eða ekki, og ein þriggja öxla 57-59 manna. Minni bílarnir eru með 400 hestafla vél og 12 gíra rafskiptum gírkassa en sá stærri með 450 hestafla vél og 16 gíra rafskiptum gírkassa. Það kom Haraldi verulega á óvart hvað þessir bílar eru eyðslugrannir. Stóri bíllinn eyði t.a.m. undir 25 lítrum á hundraðið sem er hreint út sagt ótrúlega lág eyðsla fyrir svona stóran bíl.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílablaði Viðskiptablaðsins sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.