*

Bílar 26. desember 2016

Tekist á við krefjandi verkefni

Það eru spennandi tímar fram undan hjá Volkswagen því von er á nýrri kynslóð verðlaunasendibílsins Volkswagen Crafter.

Róbert Róbertsson

Crafter er flaggskip Volkswagen atvinnubíla og er byggður til að takast á við krefjandi verkefni þar sem styrkur og notagildi er í forgangi. Við gerð nýju kynslóðarinnar var gengið skrefinu lengra og bíllinn þróaður til að koma til móts við kröfur notenda en hönnuðir nýttu sér tillögur atvinnubílstjóra við hönnunina.

Nýr Crafter var frumsýndur í september og skömmu síðar valinn sendibíll ársins 2017 á alþjóðlegu atvinnubifreiðasýningunni í Hannover. Það var einróma álit alþjóðlegrar dómnefndar atvinnubílablaðamanna frá 24 Evrópulöndum að þessi fallegi sendibíll væri einstaklega hagnýtur.

Á Alþjóðlegu atvinnubifreiðasýningunni var önnur nýjung kynnt til sögunnar þegar rafknúinn Crafter var frumsýndur. Þessi vistvæni sendibíll kemur í sölu á næsta ári og er í takt við vistvæna línu Volkswagen atvinnubíla. Nú þegar er hægt að fá sendíla sem ganga bæði fyrir metani og bensíni og rafmagnsbíllinn e-Crafter verður kærkomin viðbót við línuna.

Nýr Crafter er sparneytinn og hagkvæmur auk þess sem hann býður upp á hagnýtar lausnir fyrir daglega notkun sem uppfylla ólíkar væntingar viðskiptavina. Hann kemur með 8 þrepa sjálfskiptingu og verður í boði með fram-, aftur-, og fjórhjóladrifi. Það ríkir mikil eftirvænting fyrir bílnum og samkvæmt upplýsingum frá Heklu munu Volkswagen atvinnubílar eiga von á að geta kynnt hann til leiks á vormánuðum.

Nánar er fjallað um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins, Atvinnubílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.