*

Sport & peningar 20. mars 2012

Tekjuhæstu leikmennirnir með 60 milljarða króna

Af tuttugu tekjuhæstu knattspyrnumenn heims leika þrír með Chelsea og þrír með Manchester City.

Sjö af tuttugu tekjuhæstu knattspyrnumönnum heims spila með enskum liðum og þar af eru allir nema einn hjá Chelsea eða Manchester City. Franska tímaritið France Football tekur listann saman á hverju ári. Heildartekjur þessara tuttugu leikmanna nema um 350 milljónum evra, eða um 60 milljörðum íslenskra króna.

Tekjuhæsti leikmaðurinn þetta árið er Lionel Messi, sem spilar með Barcelona, en heildartekjur hans nema um 33 milljónum evra á ári, andvirði um 5,5 milljarða króna. Næstur í röðinni er David gamli Beckham, sem hefur það ágætt hjá LA Galaxy með um 31,5 milljónir evra í árstekjur. Í þriðja sæti er svo Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid sem hefur 29,2 milljónir evra í árstekjur. Í öllum þessum tilfellum er að ræða samanlagðar launatekjur, aukagreiðslur og aðrar sporslur. Launatekjur Messi eru t.d. um 10,5 milljónir evra og launatekjur Beckham eru um 4,8 milljónir.

Hæstu launatekjurnar hefur Samuel Eto'o, en hann fær 20 milljónir evra á ári hjá rússneska félaginu Anzhi Makhachkala. Heildartekjur Eto'o eru um 23,3 milljónir evra.

Tekjuhæsti leikmaður ensks liðs er hetja Manchester United, Wayne Rooney, sem er með launatekjur upp á 13,8 milljónir og heildartekjur upp á um 20,6 milljónir evra. Þrír leikmenn Manchester City komast á listann, eða þeir Sergio Aguero, með 18,8 milljónir evra á ári, Yaya Toure með 17,6 milljónir og David Silva með 12,8 milljónir evra á ári. Þá eru þrír Chelsea-menn á listanum; Þeir Fernando Torres, með 16,7 milljónir, Frank Lampard, með 12,9 milljónir og Didier Droga með 12,6 milljónir evra á ári.