*

Hitt og þetta 1. mars 2007

Tekjur af kostun yfir 58,5 milljarða króna

Í fyrsta skipti í sögunni hefur kostunarmarkaðurinn (e. sponsorship market) í Bretlandi farið yfir 450 milljónir punda, 58,5 milljarða króna. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknafyrirtækisins Ipsos MORI Sport & Sponsorship var markaðurinn metinn til 451 milljón punda á árinu 2006, sem er 5,37% hækkun frá 2005. Aukningin endurspeglar einstakt ár í kostunarmálum í bresku íþróttalífi þar sem gerðir voru stórir samningar í knattspyrnu, krikkett og Formúla 1 svo dæmi séu nefnd.


"Það er kannski ekki fjarri sanni að það hafi skipst á skin og skúrir inni á leikvöngunum á síðasta ári en í viðskiptalegu tilliti hafa íþróttagreinar með breiða skírskotun aldrei upplifað betri tíma. Í heildina tekið hefur endurnýjun samninga og löndun á nýjum stuðningsaðilum skilað enn hærri greiðslum til eigenda íþróttafélaganna. Tekjurnar hafa einnig aukist frá árinu 2005 tilkomu nýrra viðskiptatækifæra, eins og kostunar á heilu leikvöngunum og þrepsskiptingar á kostunaraðilum," segir Simon Lincoln, talsmaður Ipsos.


Tekjuaukning vegna kostunar er ekki einungis í stærstu íþróttagreinunum. Alþekkt er að í gegnum árin hafa íþróttir með minni útbreiðslu en þær stærstu átt erfitt uppdráttar með að tryggja sér fjárhagslegan stuðning. Á því kann að verða töluverð breyting í Bretlandi. Ólympíuleikarnir, sem verða haldnir í London 2012, hafa þegar laðað til sín fyrirtæki eins og Siemens, sem mun styðja við bakið á róðrarliði Bretlands, og LG sem styður fimleikaliðið.
Enn frekari þróun á þessum vettvangi er innkoma veðmálafyrirtækja á netinu sem nú eru í auknum máli að tengjast hinum ýmsu íþróttagreinum fjárhagslega og fylla þar skarð sem tóbaksframleiðendur skildu eftir sig þegar þeir voru neyddir til að draga sig til baka. Lincoln segir að tekjumissirinn vegna brotthvarfs tóbaksframleiðenda sem stuðningsaðila hafi ekki verið jafn mikill og margir óttuðust. Aðrar tekjulindir hafi komið í staðinn og þær þaulnýttar, eins og veðmálastarfsemi á netinu er dæmi um.


Ipsos spáir því að enn verði vöxtur á kostunarmarkaðnum í Bretlandi á þessu ári, jafnvel þótt undanskilið sé tilboðsæði sem er að renna á menn vegna kostunar í tengslum við Ólympíuleikana 2012. Einungis þrír samningar sem tilkynnt var um á síðasta ári auka heildartekjurnar á þessu ári um 3,8 milljónir punda.